Færsluflokkur: Bloggar
31.12.2007 | 18:35
Fleiri um hituna - gleðilegt árið!
Réttnefni á titli til handa Svandísi er stjórnmálamaður ársins, kannski ekki maður ársins yfir það heila. En þarna fer kjarnorkukona sem á eftir að láta enn meira af sér kveða á hinu pólitíska sviði. Að minnsta kosti arftaki fundinn í stað Steingríms J. sem hefði eflaust gott af því að skipta um hlutverk.
Ágætt val hjá Stöð 2 í dag er fréttastofan valdi fíkniefnalögregluna, fyrir frábæran árangur á árinu. Endalaust hægt að rífast um svona kosningar, þó standa aðrar sveitir nærri manni sem gera tilkall til verðlauna en það eru björgunarsveitirnar. Hef aldrei skilið hve margir nenna að standa í þessu sjálfboðaliðastarfi, að hætta stöðugt lífi sínu og limum fyrir okkur hina. Þetta eru hinar einu sönnu hetjur. Verst er hvað veðurguðirnir eru þeim lítt hliðhollir í ár varðandi sölu á flugeldum. Skiljanlegt að salan sé minni en í fyrra, því hver nennir að standa úti í hífandi roki og horfa á láréttar flugeldasýningar með tilheyrandi stórhættu á limlestingum?
Lífleg Kryddsíldin hjá Stöð 2 í dag og þar fór Guðni Ágústsson á kostum, gaf það skýrt til kynna að hann væri formaður Framsóknar næstu árin, framsóknarmaddamman holdi klædd eins og hann komst að orði. Var að sjálfsögðu ítrekað minntur á hve stutt er síðan hann steig upp úr ráðherrastóli. Guðni og þáttastjórnandinn, Sigmundur Ernir, voru í skringilegri stöðu eftir að hafa ritað saman söguna um Guðna af lífi og sál, og bar þau skrif nokkrum sinnum á góma. Pínlegt var reyndar þegar Guðni var að tala um vímuefnavandann í þjóðfélaginu þegar þjónn á Hótel Borg spígsporaði í kringum hann við borðið með brennivínsflösku! Steingrímur var einnig í stuði, upplýsti að hann hefði alvarlega verið að íhuga að hætta við að mæta sökum kostunar Alcan á þættinum og skaut föstum skotum að fyrirtækjum og fjölmiðlum. Hvenær verður messan á aðfangadag kostuð? spurði Steingrímur og var stórlega misboðið. Ingibjörg Sólrún og Geir pössuðu upp á landsföðurímyndina og Guðjón Arnar komst klakklaust í gegnum þáttinn, ekki frá því að karlinn hafi lagt eitthvað af!
Allir ætluðu stjórnmálaforingjarnir að vera við Kryddsíldarborðið að ári liðnu, varla þó Steingrímur ef Stöð 2 heldur áfram að kosta þáttinn og formaður VG að standa við stóru orðin.
ps. Hér hefur lítið verið bloggað síðustu vikurnar og þá fyrst og fremst af persónulegum ástæðum og meðfylgjandi ritstíflu. Kannski að það lagist á árinu 2008 - en óska öllum árs og friðar til sjávar og sveita. Skál !!
![]() |
Svandís maður ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.11.2007 | 22:21
Af brúðkaupi "aldarinnar"
Umfjöllun tiltekinna fjölmiðla um brúðkaup "aldarinnar" hefur kallað fram nokkrar spurningar í mínum huga. Eftir því sem ég kemst næst munu brúðhjónin Jón Ásgeir og Ingibjörg hafa óskað eftir því við fjölmiðla að fá að vera í friði með sitt brúðkaup. Skiljanleg ósk, því hver vill hafa fjölmiðla inni á kirkjugólfi í svo persónulegri athöfn? Jafnvel þó að þú sért með ríkustu mönnum landsins, og kannski ekki síður þar sem næg er athyglin og umfjöllunin um dagleg störf.
Nú vill svo til að um þetta brúðkaup hefur hingað til eingöngu verið fjallað í fjölmiðlum er tengjast brúðhjónunum eignarböndum. Veit ekki til þess að nokkuð hafi heyrst né sést í miðlum RÚV, hvorki Útvarpi né Sjónvarpi, ekkert hefur verið um þetta í Mogganum og á mbl.is, og hafi eitthvað verið í 24stundum þá hefur það farið fram hjá mér.
Um brúðkaupið var rækilega fjallað á Stöð 2, á Vísi.is, í Fréttablaðinu og svo í dag í DV. Svo ágeng var t.d. fréttastofa Stöðvar 2 að tekið var fram að henni hafi ekki verið hleypt inn í veislusalinn. Og ljósmyndir minna mann á papparassa-yfirbragð af Hollywood-stjörnum. Myndir td teknar gegnum kirkjugluggana með góðum linsum.
Er þessi umfjöllun bara hrein tilviljun? Varla hafa brúðhjónin óskað eftir friði við suma fjölmiðla en aðra ekki. Það er þá skrítinn friður sem af því fæst. Eða vildu þau bara umfjöllun í "sínum" fjölmiðlum? Eða vildu stjórnendur þeirra fjölmiðla kannski sýna rækilega að þeir væru óháðir eigendum sínum og virt óskir þeirra um frið að vettugi? Hafi svo verið þá er útkoman áhugaverð fyrir áhugamenn um umfjöllun fjölmiðla. Ef ég ætti að finna rétta svarið við öllum þessum spurningum þá hallast ég helst að síðustu spurningunni, og þá jákvæðu svari við henni. En það er nú bara gisk.
Hvað sem öllum vangaveltum líður þá sýnist mér hér vera komin áhugaverð stúdía fyrir fjölmiðlafræðinema í Háskólanum og hvernig tengsl fjölmiðla við eigendur sína birtast í umfjöllun þeirra. Athuganir hafa farið fram af minna tilefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.11.2007 | 08:25
Með Jónasi á Þingvöllum
Gegnsýrður af degi hinnar íslensku tungu, og fæðingarafmæli Jónasar gamla, þá vaknar maður upp eftir skrítinn draum þar sem við Jónas vorum staddir á Þingvöllum, á barmi Almannagjár og horfðum yfir þjóðgarðinn, um leið og okkur var hugsað til þjóðarsálarinnar á þessum dýrðarinnar degi. Saman ortum við:
Endilöng sprungaer spennist með þunga,
þjóðin mín unga,
með útþanið lunga,
elskar hrútspunga
og alls engin gunga,
- íslensk vor tunga.
![]() |
Fjölbreytt dagskrá á degi íslenskrar tugu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.11.2007 | 23:00
Spænskur spennutryllir...
Deginum var bjargað, þökk sé Hvirfilbylnum Torres, sem létti á spennunni á 81 mínútu, eftir einstefnu okkar Púllaranna fram að þeim tíma. Maður var farinn að reyta hár sitt, eða það litla sem eftir er af hárprýðinu. Þvílíkar stáltaugar sem Benitez hefur; Við sýndum þolinmæði! Þó að leiktíminn sé nú 90 mínútur er óþarfi að láta mann kveljast í 80 mín. Annnars missti ég alveg af því mómenti þegar Benitez á að hafa brosað út í annað munnvikið, maðurinn sem aldrei sást brosa í 8-0 sigrinum. Kannski er bara betra að brosa ekki neitt, frekar en þetta þvingaða fagn sem t.d. Wenger sýnir þegar Arsenal skorar. Hvernig hann hristir hendurnar og rís upp frá varamannabekknum er afskaplega ósannfærandi. Rafa kallinn er líklegast á löngum ferli búinn að stúdera að betra sé að sitjast sem fastast og sýna engin svipbrigði, vitandi það að allar myndavélar á vellinum eru á honum.
Þessi sigur okkar manna var afskaplega kærkominn, og nú eru þeir komnir í toppslaginn fyrir alvöru, en eins og leikurinn þróaðist er hann sönnun þess, "því miður" fyrir gagnrýnendur Benitez, að það sé ekki garanterað að sami mannskapur geti brillerað tvo leiki í röð. Það var ekki fyrr en Torres, eða El Ninjo, kom inn á að eitthvað rættist úr færunum sem helst Voronin hafði áður fengið. Crouch var lítt áberandi, fékk lítið af sendingum upp á kollinn, og Jússi Benayoun var ekki svipur hjá sjón.
Við munum því sjá breytt lið hjá Benitez næst, kallinn hefur því miður sannað að það þurfi að hræra svolítið í liðinu til að fá það til að virka. Enda svosem nóg af mannskap
![]() |
Benítez: Sýndum þolinmæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.11.2007 kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.11.2007 | 21:35
They tell me it's Flísabúðin!
Einhverjir fastagestir hafa kannski verið farnir að halda að maður væri horfinn fyrir fullt og allt, en ritstííflan stafar aðallega af leti eftir vetrarfrí, og eftirköstum eftir þá leti. Eins og það hafi ekki verið tilefni til að skrifa um, þó ekki væri nema 8-0 sigur Púllaranna á Tyrkjaguddunum. Vonandi hefur Rafa kallinn fattað að Krátsinn á alltaf að vera í byrjunarliðinu, alltaf - ekki bara stundum. Maður var orðinn hræddur um að næst færi Gerrard í markið...
Svo gæti ég líka sagt frá gamla manninum sem hringdi í Sigurð G. Tómasson á Útvarpi Sögu og sagðist vera búinn að finna lausnina á vandanum við að pissa standandi í klósettið og bunan út um allt, eða eins og hann sagði hreinskilningslega að bunan vildi stundum klofna í tvennt. En lausnin var sú að hann sagðist vera farinn að pissa í vaskinn á klósettinu. Hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín, og að Tvíhöfði hefði skipt yfir á Sögu, en manninum var fúlasta alvara, og maður sá í gegnum útvarpstækið að andlitið á Sigurði G datt af. Nei, svona gerir maður ekki, sagði hann með föðurlegum tóni...
Svo rakst ég á þennan skemmtilega Víkverja í Mogganum á dögunum, birt með góðfúslegu leyfi:
"Víkverji brá sér á Hótel Búðir um helgina með sinni heittelskuðu og þvílík himnasæla. Hótelið, herbergið, þjónustan, maturinn, veðrið, lognið; allt saman fyrsta flokks, svo ekki sé talað um umhverfið. Víkverji hefur ekki komið á Búðir eftir að gamla hótelið brann og nýtt var reist. Byggingin kom skemmtilega á óvart, ekki síst að innanverðu þar sem vandað hefur verið til verka með mikilli reisn, smekkleg hönnun í hólf og gólf.
Göngutúr um Búðahraunið var hressandi í blíðviðrinu, þar sem við blasti Búðakirkja, Staðarsveitin og sjálfur konungur fjallanna á Nesinu; Snæfellsjökull. Reyndar ekki allur upp á topp en það nægði Víkverja að sjá í fjallsræturnar í þetta sinn. Jökullinn dró síðan leiktjöldin frá daginn eftir, yfir morgunverðinum, er snjór var yfir öllu frá fjalli til fjöru. Reyndar stóð sú sýning stutt yfir en jökullinn er ekki allra öllum stundum. Óviðjafnanlegt er að fagna vetri í þessu umhverfi og það hljóta gestir á fullbókuðu hótelinu að geta tekið heils hugar undir. Fólk af öllum toga, innlent sem erlent, komið til að slaka á í rólegu umhverfi.
Að kveldi fyrsta vetrardags var snætt af fimm rétta matseðli þar sem hver rétturinn öðrum betri bráðnaði í munni. Humarinn, öndin, hrefnukjötið, saltfiskurinn og gæsin. Allt var þetta eldað og borið fram af miklum myndarskap og engir tveir diskar eins. Víkverji sýndi einum þeirra sérstakan áhuga, ferköntuðum og þykkum steinplatta, og ímyndaði sér að efniviðurinn væri áreiðanlega sóttur í umhverfið á Nesinu, svo hrjúft og náttúrulegt var grjótið ásýndar og viðkomu. Var enskumælandi þjónn spurður um uppruna plattans og þar sem hann, eða öllu heldur hún, sagðist ekki vita það ætlaði hún að spyrjast fyrir. Hún kom að vörmu spori, og Víkverji orðinn forvitinn, en það skal viðurkennast að svarið kom skemmtilega á óvart og dró örlítið úr stemningu stundarinnar hjá náttúruelskandi turtildúfunum:
"They tell me it's Flísabúðin" "
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2007 | 20:13
Hvað á að syngja? Tíu litlir blökkudrengir?
Það fór eins og mann grunaði, endurútgáfa á barnabókinni um negrastrákana kom við kauninn á fólki. Mikið afskaplega erum við orðin viðkvæm, rétttrúuð og húmorslaus. Það hefði þá kannski verið nær að láta Biblíufélagið endursemja textann og samræma hann rétttrúnaði nútímans. Hvað hefði þá átt að nota í staðinn? Svörtu strákarnir? Blökkudrengirnir?
Negrastrákarnir er einfaldlega klassískt bókmenntaverk sem hefur verið til á öðru hverju heimili í landinu síðustu 30 árin. Hún er væntanlega endurútgefinn þar sem útgefandinn fann fyrir eftirspurn eftir henni. Hún er ekkert betri eða verri en margar barnabækur sem koma á markaðinn, sumar hverjar með slíku orðbragði að maður hefur við upplestur roðnað og tautað innra með sér hverslags bull þetta er. En þetta eru skáldverk og óþarfi að úthrópa þau á götum úti.
Umræða um innflytjendur eða fólk af erlendum uppruna einkennist á stundum af móðursýki, og fjölmiðlar t.d. gagnrýndir fyrir að geta uppruna fólks í fréttum, ekki síst í lögreglufréttum og sakamálum. Vissulega bera fjölmiðlar þarna ábyrgð og mega ekki kynda undir óþarfa kynþáttafordóma, en ég sé enga fordóma vera í því að segja að brotamenn eða sakamenn hafi verið íslenskir, pólskir, breskir, kínverskir eða grænlenskir. Þetta eru einfaldlega staðreyndir mála, alveg eins og hvar atburður átti sér stað, hvernig og af hverju.
Við Íslendingar búum í gjörbreyttu samfélagi frá því fyrir fáum árum, þar sem innflytjendum hefur fjölgað gríðarlega. Það er bara hið besta mál, einhvern veginn verðum við að manna störfin sem við höfum búið til og það er óþarfi að vera með einhverja viðkvæmni í umræðu um þetta ágæta fólk. Upp geta komið smávægilegir árekstrar, þá einkum vegna tungumálaörðugleika, og það var magnaður sketsinn hjá Spaugstofunni um síðustu helgi, þegar gamla fólkið var komið á skólabekk að læra taílensku og pólsku, t.d. að spyrja á taílensku: Viltu rétta mér hlandkoppinn? Óborganlegt
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.10.2007 | 21:48
Dapurt á leikvelli dauðans
Okkar menn eru ekki að meika það þessa dagana, og sennilega er Finninn fljúgandi að koma inn til lendingar, allt að því brotlendingar. Reyndar afskaplega óheppinn í kvöld kallinn að fá boltann í sig í sjálfsmarkinu, en svo missti hann Brassann inn fyrir sig í seinna markinu.
Annars er ekkert lið öfundsvert að því að spila á heimavelli Besiktas, þetta er leikvöllur dauðans þar sem öskrandi lýðurinn kallar á blóð, enda eru nýir leikmenn þarna vígðir inn með blóði dýra sem fórnað er á altari trúarofstækis. Það fékk Jolli að reyna um árið, og hefur víst aldrei upplifað annað eins á sínum ferli.
Síðan setur maður stórt spurningamerki við taktík Benitez í innáskiptingum og liðsskipan. Hann var alltof seinn að setja Crouch inná í kvöld, Kuyt var ekki að gera sig og Voronin ekki heldur. Vonandi fer Torres að koma inn í liðið. Með smá heppni hefðu þessu úrslit í kvöld geta verið öðruvísi, Gerrard með nokkra góða sénsa, en svona er blessaður boltinn. Það eru ekki alltaf jólin og nú er bara að einbeita sér að deildinni á Englandi, líklegast eru vonir um að komast áfram í Meistaradeildinni orðnar að engu.
Þetta er sárt, og tekur í, en þú ert aldrei einn á ferð...
![]() |
Liverpool lá í Istanbul |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.10.2007 | 21:48
Nú er það Operation Olsen-Olsen!
Ánægjulegt að fjölga skuli í víkingasveitinni, ekki veitir af í baráttunni við skipulögð glæpasamtök og illræmd fúlmenni, sem virðast farin að flykkjast til landsins stríðum straumi, að ógleymdum glæpamönnum Íslands.
En það að víkingasveitarmennirnir verði 52 gefur gárungum eins og mér færi á að benda á þá skemmtilegu staðreynd að þetta er sami fjöldi og spilin eru í hefðbundnum spilastokki! Nú getur hver og einn liðsmaður fengið status, allt frá Hjarta-ás til Laufa-Kóngs, og allt þar á milli, allt eftir því hve háttsettir menn eru innan sveitarinnar. Og svo gefur þetta lögreglunni færi á að gefa aðgerðum sínum skemmtileg heiti, eins og Operation Poker, Operation Olsen-Olsen eða bara Operation Manni, alveg eins og Operation Pole-Star í skútusmyglinu á dögunum.
Vona að maður verði ekki böstaður vegna þessarar bloggfærslu en hér er þó amk komin hugmynd fyrir nafngiftir í fjarskiptum víkingasveitarinnar. Einhver dulnefni verða menn að hafa....
![]() |
Víkingasveitin verði skipuð 52 lögreglumönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.10.2007 | 20:54
Það er málið, félagsliðin eru þeim mikilvægari
Ágætis pistill að mörgu leyti hjá kollega mínum á Mogganum í gær, FH-ingnum knáa, Gumma Hilmars, um að leikmenn fótboltalandsliðsins verði líka að bera sína ábyrgð á slæmu gengi liðsins. Það virðist vera eitthvað meira en lítið að í hugarfylgsnum leikmannanna, og td athyglisvert að sjá á Vísi um helgina ummæli Arnars Þórs Viðarssonar á hollenskri sjónvarpsstöð um að félagslið hans, De Graafschap, sé mikilvægara en landsliðið. Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn, nánast í heilu lagi, að leikmennirnir margir hverjir telja landsliðið í raun ekki forgangsmál. Þá á maður við atvinnumennina sem hefur verið treyst fyrir landsliðssæti, þeir veigra sér td við því að fara í tæklingar, eru hræddir við að meiðast og missa sæti sín í félagsliðunum. Á þessu er þó amk ein undantekning, eða Hemmi Hreiðars, sem fer í hvern leik með hjartað og heilann á réttum stað. Hann hefði í raun miklu frekar átt að bera fyrirliðabandið en gullkálfurinn Eiður Smári, sem þrátt fyrir alla hans hæfileika í fótbolta virðist vera ákveðinn dragbítur á landsliðið. Það hafa úrslit síðustu landsleikja sýnt, því miður.
Svo var líka merkilegt að sjá það haft eftir Eiði Smára um helgina, að honum líði best á miðjunni. Ef svo er, hvað er hann þá að rembast við að keppa um sóknarmannsstöður á Spáni, og óska þess að spila fremst með landsliðinu? Hefði hann hikstað þessu upp úr sér fyrr, og verið á miðjunni með landsliðinu og skilað fyrirliðabandinu til Hemma Hreiðars, hefði gengi liðsins verið allt annað. Það er mín skoðun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.10.2007 | 21:09
Tapaði bjórkippu...
Ég á einhvern tímann við gott tækifæri eftir að rukka vin minn Eyjólf um bjórkippuna sem ég tapaði í veðmáli í kvöld! Ætla rétt að vona að hann taki þessa drengi sína og húðskammi þá fyrir að gera ekki það sem fyrir þá er lagt, og láti þá taka 100 armbeygjur eftir leik. Palli Ragnars lét okkur amk hlaupa einn hring eftir tapleiki hjá Stólunum í gamla daga, sem reyndar voru svolítið margir....
Merkilegur þessi grátkór sem alltaf fer í gang eftir tapleiki, Reka þjálfarann, reka þjálfarann! Í þessu tilviki er það engin lausn. Til bóta væri að draga Eið Smára aftar á völlinn, hann er of góður til að hanga frammi og taka af honum fyrirliðabandið til að færa hann nær hinum drengjunum. Þessi frábæri fótboltamaður er að verða of stór biti fyrir landsliðið, þó ljótt sé að segja þá spilum við jafnvel betur án hans.
Við eigum að sýna meiri þolinmæði og byggja upp samhent lið til næstu afreka. Ljóst er að alþjóðaboltinn er í mikilli framför, meira að segja Liechtenstein er bara með nokkuð gott lið, og litlar þjóðir eru að dragast meira aftur úr þeim stóru. Þetta er raunveruleiki sem við verðum að sætta okkur við.
Við eigum að horfa fram á veginn, fylkja okkur um Eyjólf og landsliðið og öskra Áfram Ísland áður en við leggjumst á koddann í kvöld... og þegar við vöknum í fyrramálið.
ps. hafi einhver haldið að ég hafi verið möggaður í Kína, eða hrapað með vélinni, þá er ég semsagt löngu lentur en fékk bara einfaldlega bloggstíflu og depressjón eftir byltinguna í Ráðhúsinu og alla þá vitleysu sem þar gekk á
![]() |
Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggvinir
-
annapala
-
attilla
-
bjarnihardar
-
davidlogi
-
esv
-
elvabjork
-
ellikonn
-
eysteinn-thor
-
gudrunvala
-
hoskuldur
-
jamesblond
-
kalli33
-
kristjanb
-
raggibjarna
-
ragnhildur
-
rungis
-
naiv
-
seth
-
sigurdurarna
-
soli
-
laufabraud
-
gudni-is
-
gusti-kr-ingur
-
businessreport
-
ornsh
-
vitinn
-
gattin
-
muggi69
-
sverrirth
-
sveitaorar
-
gudrununa
-
okurland
-
steinunnolina
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007