Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Hver var á ljósunum?!

Okkar fólk stóð sig vel í kvöld, en er ekki frá því að þau hafi verið betri og mun öruggari á fimmtudagskvöldið. Það var líka einhver sem klikkaði á ljósunum þarna í lokin í kvöld, allt í einu voru þau Regína og Friðrik Ómar komin í skuggann, og verst að það brot var endurtekið í endusýningum meðan talningin stóð yfir. Ekki að þetta hafi skipt sköpum í þeirri pólitík og nágrannakærleik sem birtast jafnan í atkvæðagreiðslunni. Norðurlandaþjóðirnar engu betri, svona er þetta bara.

En maður var svosem ekki langt frá því í spánni, skeikaði tveimur sætum með Ísland, en hafði bara ekki hugmyndaafl til að ætla að Rússinn myndi vinna. Ekkert sérstakt lag. Var með Úkraínu og Armeníu ofarlega, annað klikkaði. Líklegast er maður einni rauðvínsflöskunni fátækari....!


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum að tala um 10-12...

Bara svona rétt til að vera með gáfulega spá, þá sé ég fyrir mér Ísland í 10. til 12. sæti. Búinn að leggja undir eina rauðvín í vinnunni fyrir eftirtalda röð í keppninni:

1. Úkraína 2. Armenía 3. Serbía  4. Georgía 5. Svíþjóð.

Svo kemur þetta í ljós á eftir, bara gaman. ÁFRAM ÍSLAND.


mbl.is Eurovision: Topp tíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er góður knattspyrnumaður?

Glæsilegur árangur hjá Hermanni og félögum og ástæða til að samfagna sérstaklega með Eyjamanninum knáa. Frábær karakter og leikmaður inni á velli, og að mér skilst utan vallar líka. Hef líklega ekki séð hann berum augum síðan á Hótel Íslandi fyrir um 10 árum er hann steig stríðsdans uppi á borðum í sigurgleði eftir jafntefli á móti Frökkum á Laugardalsvellinum!

En þessi frétt fær mann til að hugsa um annað, þ.e. val á 10 bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar sem Stöð 2/Sýn stóð fyrir og gera á þætti um í sumar. Hermann Hreiðarsson er ekki í þeim hópi og heldur ekki Eyjólfur Sverrisson, en báðir geta þeir nú státað af meistaratitli með sínum félögum í atvinnumennskunni og einkar farsælum ferli með landsliðinu og sínum liðum. Þess ber að geta að þeir félagar voru í hópi 20 knattspyrnumanna sem sérstök dómnefnd á vegum Stöðvar 2 valdi, áður en val á 10 bestu var sett í val almennings, ef ég skil þetta fyrirkomulag rétt. Mat á því hver er bestur í einhverju er ætíð afar huglægt, og ekki allir á sömu skoðun í þeim efnum. En maður skyldi ætla að val á bestu knattspyrnumönnunum fari einnig eftir þeim árangri sem þeir ná með liðum sínum. Á löngum og farsælum atvinnumannsferli náði Eyjólfur tveimur meistaratitlum og var fyrstur Íslendinga til að leika í Meistardeild Evrópu.

Knattspyrna er ekki einstaklingsíþrótt, hún er hópíþrótt og þetta gleymist iðulega þegar kemur að vali á því hver er "bestur". Þegar litið er yfir lista Stöðvar 2 yfir þá 10 bestu, sé ég fljótt að Eyjólfur og Hermann ættu hiklaust að vera þar, alveg eins og t.d. Pétur Pétursson, Rúnar Kristinsson eða Sigurður Jónsson. Fótbolti snýst ekki eingöngu um knattleikni og markaskorun, hún snýst um svo margt margt annað. En þetta hefur á endanum sjálfsagt verið vinsældakosning meðal almennings og atvinnumenn sem komið hafa utan af landi, líkt og Eyjólfur og Hermann, hafa átt brattann að sækja hjá áhangendum "stóru" félaganna í borginni. Þannig er það nú bara. Því miður.


mbl.is Hermann enskur bikarmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnar um hjartarætur...

Manni hlýnar um hjartaræturnar að lesa svona frétt, hún lætur ekki mikið yfir sér en hefur gríðarlega þýðingu í huga allra sannra Púllara. Snjallt hjá Spánverjanum að leita til gamalgróins Liverpoolmanns, sem veit hvað klukkan slær á Anfield. Vonandi nást samningar við Lee og ánægjulegt verður að sjá kunnugtlegt andlit við hlið þjálfarans á bekknum, svona líkt og var gott að sjá Phil Thompson við hlið Houllier um árið. Þetta heldur nostalgíunni og neistanum lifandi frá gullaldartímabili félagsins á síðustu öld.


mbl.is Liverpool í viðræðum við Lee
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meitlaður Jónas - og mannlegur

Minn gamli lærifaðir á því sem ég kalla "gamla" DV, Jónas Kristjánsson, skrifar meitlaða pistla á vef sínum, jonas.is. Hárbeitt ádeila á allt og alla, á Fróni sem í fjarlægum heimi. Stóru orðin sjaldan spöruð. Ekki er maður alltaf sammála karlinum, en lesningin óneitanlega hressandi. Inni á milli sýnir hann á sér mannlegu hliðina, og hefur húmor fyrir sjálfum sér, samanber skrifin hér að neðan frá því á föstudaginn 9. maí. Pistlar er ekki rétta orðið yfir skrifin, þau ná ekki þeim lengdum, nær að tala um skeyti eða mola. Halda mætti að hann skrifaði í síðusnið (template) eins og við á Mogganum, skeytin aldrei lengri en 9-10 línur, orðin um og yfir 100 talsins, og engar málalengingar. Formfastur er hann, skeytin yfirleitt 4-5 á dag. Knappur, klár, enda Skagfirðingur að stórum hluta!

 

-------


Tvíheppinn á einum degi
Var í morgun búinn að bíða á biðstofu í kortér eftir hálftíma meðferð í sjúkraþjálfun. Sá næsti á eftir mér var kominn. Í hroka mínum stóð ég upp og gekk út. Í útidyrunum sá ég trukk bakka inn í hliðina á bílnum mínum. Náði númerinu, fékk tjónaskýrslu og slepp skaðlaust. Var í gær búinn að kaupa nýjan bíl, þann stærsta og dýrasta á ævinni. Vegna fjarvistar manns fæ ég hann ekki afhentan fyrr en eftir helgi. Var því enn á gamla bílnum. Þannig var ég ekki á nýja bílnum í morgun og sá tjónið gerast. Er hægt að vera meira heppinn en tvöfalt á einum og sama deginum?
(heimild: jonas.is)


Frí frá enska boltanum

Jæja, þá er enski boltinn búinn og maður veit satt að segja ekki  hvað tekur við. EM í sumar og England ekki með. Undarlegur andskoti. Tímabil mikilla væntinga og vonbrigða er að baki hjá mínum mönnum í Liverpool. Engir titlar í húsi. Fátt til að gleðjast yfir nema markamaskínan Torres og snillingurinn Gerrard. Vonandi verða þeir áfram í okkar herbúðum, og svo virðist sem Benitez muni þjálfa áfram þó að maður hefði ekkert haft á móti skiptingu. Það er næsta víst að krafa um titil verður öskrandi hávær næsta vetur, og það er einnig næsta víst að nú verður stefnan tekin á Anfield. Kominn tími til að fara til Mekka, áður en maður fer á elliheimili eða að þeir rífi niður Anfield.

Hér til hliðar er komin ný könnun, um hverjir verða Íslandsmeistarar í knattspyrnu. Tippa á að þessi fjögur lið verði í toppbaráttunni, Skaginn gæti blandað sér þarna í hópinn en þeir komast ekki að hjá mér af persónulegum ástæðum. Í fyrri könnun varð endirinn sá að Man Utd var spáð Englandsmeistaratitli, sem varð raunin á síðustu stundu. Óþolandi að horfa upp á þetta lið vinna trekk í trekk, vonandi fer Ferguson að hætta og þá hrynur veldið...


Þóra átti tilburði kvöldsins

Sem búsettur Reykvíkingur (semsagt ekki innfæddur) harma ég að sjálfsögðu ósigur míns liðs en ætli megi ekki segja að tapið sé táknrænt fyrir ástandið í borginni um þessar mundir, á meðan Kópavogi gengur allt í haginn.

Tilburði kvöldsins átti hins vegar Þóra Arnórsdóttir í lok þáttarins þegar hún líklega plataði alla þjóðina í nokkur sekúndubrot, með því að taka um kviðinn og beygja sig, ólétt konan á síðustu dögum meðgöngu. Sá amk ekki betur en að samstarfsmaður hennar, Sigmar, varð stjarfur um stund. Skemmtilegur endir á skemmtilegum þætti, en það hefur svo sannarlega ræst úr Útsvarinu, tók sinn tíma að komast af stað fyrst í vetur og ná flugi en verður áreiðanlega aftur á dagskrá næsta vetur.

Hið vaska reykvíska lið var óheppið í lokin, og eftirá má segja að þau hefðu átt að taka 15 stiga spurningu frekar en 10 þarna í miðjunni. Og 5 stiga spurningin sem Kópavogur valdi sér var þung, amk þótti mér það en hér á þessu heimili kom svarið hjá betri helmningnum á svipstundu: Kremkex! Hafði hreinlega hvorki ímyndunarafl né þekkingu til að vita að það hefði verið kallað Sæmundur á sparifötunum. Alltaf kemur það betur og betur í ljós hve lítið maður veit - og hve vel maður er giftur....LoL

ps. Talandi um Kópavog þá heyrði ég einn ágætan í dag. Það er víst búið að þýða hvað Gunnar Birgisson sagði nákvæmlega þegar hann sagði: Það er gott að búa í Kópavogi. Leikið á réttum hraða þá mun hann víst hafa sagt: Það er gott á þig að búa í Kópavogi...

 

 


mbl.is Kópavogur vann Útsvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 32006

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband