Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
14.1.2008 | 21:55
Ég er vinur DAS
Nýstárleg auglýsing hjá SÍBS, þar sem höfðað er til vinargreiða okkar, samvisku og góðvildar. Ég er vinur SÍBS, segir kona og þylur væntanlega upp happdrættisnúmerið sitt sem hún hefur verið með í árafjöld, kannski án þess að hafa nokkurn tímann unnið krónu. Þannig er amk með mig hjá DAS. Ég er vinur DAS, m.a.s. mjög góður vinur. Hef spilað þar í svo mörg ár að ég man ekki hvað þau eru orðin mörg. Framlag mitt er áreiðanlega farið að skipta hundruðum þúsunda króna. Hins vegar man ég mjög vel að ég hef aldrei unnið, ekki einu sinni, en grunsamlega margir í kringum mig með svipaða talnarunu unnið oftar en einu sinni. Þessi útdráttar-tölva mætti nú fara að muna eftir mér!
Það er gott að geta gert góðverk og stutt góð málefni. Ég er ekki bara vinur DAS, ég er vinur Krabbameinsfélagsins, ég er mjög oft vinur Lottósins og Lengjunnar, ég er vinur Barnaheilla um jólin þegar samtökin senda mér jólakort og sama má segja um Rauða krossinn. Og svo er ég vinur RÚV, líkt og allir hinir sem greiða afnotagjöldin...
En allt er þetta nú í gamni sagt, áreiðanlega á ég eftir að fá þetta framlag til DAS margfalt til baka. Til þess verð ég að tóra fram á elliárin, geri það þó tæpast með því að sitja á rassgatinu allan liðlangan daginn og bulla einhverja bölvaða vitleysu...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2008 | 23:06
Alveg eru þessi frístundakort mögnuð
Ég var ekki að uppgötva þessi frístundakort, og þá snilli sem að baki þeim býr, af neinni alvöru fyrr en í gær þegar maður á einu bretti ráðstafaði 50 þúsund krónum hjá krökkunum í fótbolta og ballett næstu mánuðina. Notaði kortið fyrir guttann að vísu í haust, en sú upphæð var svo "lítil" að hún tikkaði ekki í bókhaldinu. En það gerir 50 þús kall. Þessir peningar hefðu hvort eð er farið í að greiða þessi æfingagjöld að fullu, án tilvistar frístundakorta, þannig að hvað sem segja má um pólitíkusa í borginni og þeirra frammistöðu síðustu mánuði, þá er þetta líklegast einhver mesta kjarabót sem fjölskyldufólk hefur fengið í mörg herrans ár. Fyrir framtakið skal þakkað hér með, hver sem átti ú hugmyndina fyrstur. Man það ekki lengur.
Nú er bara að finna ráð til að eyða þessum 50 þúsund kalli sem maður var að spara sér...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2008 | 18:12
Hitnar undir spænskum rassi...
Mikið lifandis skelfing er maður orðinn óþolinmóður eftir að sjá liðið sitt spila af einhverju viti, fjórða jafnteflið í röð. Þetta er farið að taka all verulega á taugarnar og blóðþrýstinginn. Liðið er eitthvað svo andlaust og hugmyndasnautt, helst að eitthvað líf sé í Torres og Babel, Gerrard er úi á túni. Ekki veit ég af hverju Crouch var ekki sjáanlegur í dag, ekki einu sinni á bekknum. Það er eins og Benitez karlinn eigi ekki lengur nein spil á hendi, alltaf með sama fýlusvipinn á bekknum. Eitthvað vantar - hvernig væri bara að sparka karlinum og fá Mourinho á Anfield, þá gæti færst fjör í leikinn á ný. Ef þetta heldur svona áfram fer stóllinn hjá hinum spænska stjóra að verða æði heitur.
Vonandi fer eitthvað að gerast af viti. Á meðan Crouch er fjarverandi og Kuyt inn á, þá gerist ekki mikið - því miður.
Birmingham náði stigi á Emirates | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.1.2008 | 21:45
Mugisonfeðgar flottir en Heimir er flottari!
Samgleðst Mugison og pabba hans fyrir að hafa fengið Eyrarrósina, tónlistarhátíð þeirra á Ísafirði er stórmerkileg, en sem "gamall" Skagfirðingur og aðdáandi Heimis hefði mér þótt við hæfi að karlakórinn fengi verðlaunin fyrir þeirra frábæra framlag til íslenskrar alþýðumenningar í átta áratugi. Þó var sérlega ánægjulegt að heyra að kórinn hefði mætt á Bessastaði í dag og kyrjað fyrir viðstadda.
Get af þessu tilefni tekið undir hvert orð Víkverja í Mogganum á þriðjudag, sem skrifaði svona skemmtilega um kórinn, en eitthvað skaut hann yfir markið um hver myndi afhenda verðlaunina, það gerði Dorrit svo glæsilega, enda verndari Eyrarrósarinnar:
,,Víkverji á sér þá ósk heitasta að Karlakórinn Heimir í Skagafirði fái Eyrarrósina svonefndu í hnappagatið, verðlaun sem farið er að veita fyrir merkilegt og framúrskarandi framlag til menningarmála á landsbyggðinni. Heimismenn eru tilnefndir ásamt ísfirsku tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður og Safnasafninu í Eyjafirði. Verðlaunin verða afhent á Bessastöðum á fimmtudag, væntanlega af forseta vorum, Ólafi Ragnari Grímssyni. Tónlistarhátíðin og Safnasafnið eru hvor um sig merkileg fyrirbrigði, og eiga allt gott skilið, en líta ber til þess að Karlakórinn Heimir hefur lifað með þjóðinni í 80 ár, að vísu ekki alveg óslitið af fullum krafti en hann er án nokkurs vafa enn á blómaskeiði síðustu áratuga. Kórinn hefur í gegnum tíðina skemmt þúsundum tónleikagesta á ferðum sínum um landið og heiminn með ómþýðum og undurtærum röddum.
Heimismenn fylla hverja þá samkomu sem þeir efna til, líkt og gerðist í Íþróttahúsinu í Varmahlíð um helgina þegar metnaðarfull og umfangsmikil söngskemmtun til heiðurs Stefáni Íslandi var frumsýnd. Komust færri að en vildu en þess ber að geta að sama sýning verður sett upp á Akureyri hinn 19. þessa mánaðar og viku síðar í Langholtskirkju í Reykjavík, auk þess sem til stendur að fara með sýninguna til Austfjarða.
Hryggjarstykkið í 80 ára kórstarfi og sögu Heimis er óbilandi áhugi, eljusemi og sönggleði skagfirskra bænda og afkomenda þeirra, sem hafa ekki vílað fyrir sér að fara langar og torsóttar leiðir til æfinga; í fyrri tíð ríðandi og gangandi í hvaða veðri sem er en að sjálfsögðu akandi í seinni tíð. Fyrir suma kórfélaga hefur þetta verið tugkílómetra leið þannig að fórnfýsin hefur verið mikil, líkt og tíðkast í kórstarfi hér á landi, sem hefur jafnan verið blómlegt.
Að fá tilnefningu til Eyrarrósarinnar er mikill heiður fyrir Heimismenn en í ljósi langrar og farsællar sögu kórsins yrði það að mati Víkverja í raun hneyksli ef sjálf verðlaunin enda ekki í Skagafirði."
Aldrei fór ég suður fékk Eyrarrósina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2008 | 22:28
Stöð 2 hækkar og afruglaðist í boði Byrs
Hægt og hljótt hækkaði Stöð 2 áskriftina hjá sér um 3,7% um áramótin, líkt og lesa má um á vef stöðvarinnar. Er mánaðaráskrift nú komin í tæpar sex þúsund krónur, var um 5.300 fyrir ári, áður en vaskur af áskriftarverði fjölmiðla var lækkaður. Vafalaust eiga fleiri áskriftarmiðlar eftir að hækka hjá sér, en fyrir svona boltafíkla eins og mig er sjónvarpspakkinn orðinn æði fyrirferðarmikill í heimilisbókhaldinu. Með RÚV-skattinum kominn nálægt 15 þúsund kalli á mánuði. Hækkunin hjá Stöð 2 kemur kannski ekki svo mjög á óvart, miðað við allt það innlenda efni sem stöðin býður upp á og það er áreiðanlega dýru verði keypt og framleitt. Nýjasta afurðin er Pressan.
Hins vegar var annað sem maður tók eftir með Stöð 2 um hátíðarnar, sem mig rekur ekki minni til að hafa séð áður. Dagskráin var sýnd órugluð og opin öllum á aðfangadag og gamlársdag, að mig minnir. Það var þó ekki alfarið sökum góðmennsku Stöðvar 2 heldur var opin dagskrá í boði Byrs, sem fékk fyrir vikið merki sitt birt á skjánum allan liðlangan daginn á móti Stöðvar2 merkinu. Hafi þetta gerst áður þá hefur það farið framhjá manni, en þetta er engu að síður athyglisverð tekjulind sem stöðin hefur fundið. Þetta var í sjálfu sér ekki ósvipað því þegar Mogganum mínum var "pakkað inn" með auglýsingu frá Toyota í fyrsta blaði ársins. Skil vel að einhverjum hafi þótt það orka tvímælis, en eðlilega reyna fjölmiðlar að leita allra leiða til að fjármagna starfsemi sína. Aðeins þarf að gæta hófs og misbjóða ekki áskrifendum sínum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.1.2008 | 18:07
Þróunaraðstoð við litlu liðin...
Fyrir gamla og gallharða Púllara eru þessi úrslit óviðunandi, en við verðum að líta á þau sem þróunaraðstoð Liverpool við litlu liðin á Englandi. Luton ku vera á barmi gjaldþrots og fékk víst innkomuna í dag óskipta*. Norðmaðurinn Riise er góðhjartaður piltur og sá til þess að Luton fengi enn meiri peninga í kassann, nú fær litla liðið að mæta örlögum sínum í seinni leiknum á Anfield. Tapi Liverpool hins vegar þeim leik þá mun ég opinberlega lýsa yfir vantrausti á Benitez og óska eftir því að hann verði rekinn án tafar. Hans staða er þegar orðin viðkvæm eftir úrslit síðustu leikja og ekki að undra fréttir í breskum miðlum um að þetta sé hans síðasta tímabil á Anfield.
Og hver skoraði svo fyrir Liverpool í dag? Jú vinur minn Crouch sem Benitez hefur ekki talið sig hafa not fyrir. Vonandi fer sá spænski að fara að sjá ljósið...
ps. *mér hefur verið bent á að Liverpool hafi neitað Luton um að skipta innkomu leiksins í dag. Ljótt ef satt er og lýsir óttalegri nísku hjá mínum mönnum, jólin eru jú ekki alveg búin...
Luton náði jafntefli við Liverpool | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.1.2008 | 17:54
Skaupið endursýnt og Laugardagslögin endalausu
Sjónvarpið bauð manni í gærkvöldi upp á endursýnt Áramótaskaup og upprifjun á Laugardagslögunum og eftirminnilegustu atvikum þar til þessa. Gaf ágætis fyrirheit um gott sjónvarpskvöld. Hið merkilega var að Skaupið var ekki ekki eins gott í endursýningu, enda var maður staddur í allt öðru umhverfi og stemningu á gamlárskvöld heldur en í gærkvöldi. Skaupið á bara að virka einu sinni, það á ekki að þurfa fleiri sýningar til að fólk fatti brandarana.
Ég er búinn að týna þræðinum í Laugardagslögunum. Keppnisfyrirkomulagið er orðið allt of flókið og langdregið. Nú var upplýst að sérstök dómnefnd væri búinað velja þrjú lög í aukaþátt eftir viku. Maður stóð í þeirri trú að lögin sem lentu í öðru sæti, sem hlustendur Rásar 2 kusu sérstaklega, fengju annan séns í aukaþættinum, ekki bara þrjú lög valin af einhverri dómnefnd. Á mínu heimili voru amk mikil vonbrigði að sjá ekki lagið áfram sem Hara-systur fluttu, og val þessarar dómnefndar æði sérstakt. Kæmi ekki á óvart að þjóðin verði búin að fá sig fullsadda af Euruvision þegar líður á veturinn. Að auki er hægt að hætta þessu strax og tilkynna Ho ho ho, hey, hey hey sem sigurlagið. Hin lögin eiga ekki séns.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2008 | 22:59
Kemur ekki á óvart
Ákvörðun Ólafs Ragnars kom ekki á óvart, hún lá í loftinu, fátt benti til annars en að hann héldi áfram í önnur fjögur ár. Ekki er langt síðan birtar voru kannanir sem sýndu ánægju yfirgnæfandi meirihluta þjóðarinnar með störf forsetans. Hann hefur fundið sér öflugan vettvang sem er að opna dyr fyrir íslensk fyrirtæki í útrás. Það hefur hann gert vel og forsvarsmenn fyrirtækja hæstánægðir með hann, því kynntist maður af eigin raun í Kína í haust þegar Ólafur Ragnar var þar á ferð ásamt Dorrit.
Ólafur Ragnar má heldur ekki gleyma fólkinu í landinu, á ferðum sínum um heiminn, því væntanlega vilja Íslendingar líka hafa hann til "heimabrúks" fyrst hann nýtur svo mikils stuðnings. Ekki nema að fólk vilji bara hafa hann í útlöndum! Forsetanum var tíðrætt í nýársávarpi sínu um að við þyrftum að hægja á og fara að spara. Orð í tíma töluð en í kringum mann í dag mátti heyra raddir þess efnis að forsetinn ætti þá að sýna gott fordæmi og spara við sig utanlandsferðirnar!
Athyglisverð þau ummæli Steingríms J. í Kryddsíldinni í gær að setja ætti reglur um kjörtímabil forsetans, lengja þau jafnvel í sex ár og hafa þau aðeins tvö, þannig að ekki væri hægt að vera lengur forseti Íslands en í 12 ár. Getur verið að Steingrími finnst Ólafur Ragnar, fyrrum vopnafélagi sinn í pólitík, búinn að vera of lengi á Bessastöðum? Blundar forsetadraumur í huga Steingríms?!
Býður sig fram til endurkjörs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
- annapala
- attilla
- bjarnihardar
- davidlogi
- esv
- elvabjork
- ellikonn
- eysteinn-thor
- gudrunvala
- hoskuldur
- jamesblond
- kalli33
- kristjanb
- raggibjarna
- ragnhildur
- rungis
- naiv
- seth
- sigurdurarna
- soli
- laufabraud
- gudni-is
- gusti-kr-ingur
- businessreport
- ornsh
- vitinn
- gattin
- muggi69
- sverrirth
- sveitaorar
- gudrununa
- okurland
- steinunnolina
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
Fyrir vísnavini og húmorista tel ég fulla ástæða til að vekja athygli á þessari yndislegu vísu sem Ari Jóhann Sigurðsson, söngvari með meiru frá Holtsmúla, gaukaði að mér hérna á síðunni. Hún mun vera eftir Sigurð Hansen frá Kringlumýri í Skagafirði, sem er með snjöllustu og fyndnustu hagyrðingum landsins. Lét Sigurður vísuna falla á Bessastöðum er hann var þar mættur ásamt öðrum kórdrengjum í Heimi, og tilkynnt var að tónlistarhátíðin "Aldrei fór ég suður" hefði fengið Eyrarrósina, verðlaunin sem Heimir var einnig tilnefndur til. Út úr þessum línum má lesa nett vonbrigði Sigurðar:
Ég var alinn upp í sveit
alltaf talinn bestur.
Eitt er víst að alþjóð veit
að aldrei fer ég vestur.