Færsluflokkur: Bloggar

Áttum þetta inni hjá Svíunum

Eins og þessir sænsku dómarar voru búnir að haga sér undarlega í leiknum, þá var hreint ágætt hjá þeim að dæma vítið í lokin. Einhverjir hefðu dæmt ruðning á Arnór Atla. En víti var það og ískaldur Snorri Steinn kláraði þetta með sóma. Væri dómgæsla leiksins skoðuð í þaula, þá kemur í ljós hve oft var dæmt út í hött á okkur. Rauða spjaldið á Loga Geirs var fáránlegt en sá drengur má reyndar passa sig inni á vellinum. Virðist vanta eitthvað upp á herkænskuna sem karl faðir hans sýndi á árum áður.

Annars ættu Danir ekkert að vera að væla þetta, ég spái þeim áfram í 8-liða úrslitin úr riðlinum ásamt Þjóðverjum, okkur og S- Kóreu. Danir munu klára Þjóðverja í síðustu umferðinni, en síðan spái ég að þeir fái Frakka í 8-liða. Gott á þá. Ég spái því að við fáum Króata í 8-liða og komumst í 4-liða. Lengra þorir maður ekki að spá, allur árangur úr þessu er bónus. Allt of snemmt er að tala um einhvern pall þarna í Peking.

 

 


mbl.is Jafntefli gegn Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn með vængi?

Hefur þetta ekki bara verið meirihluti F og D að fjúka út um veður og vind...?LoL

Annars fékk maður á tilfinninguna seinni partinn í gær, þegar Broddi Broddason var mættur í hljóðstofu RÚV að eldgos væri hafið í borginni eða einhverjar meiriháttar náttúruhamfarir. Óreiðan í borgarmálunum eru sjálfsagt ekkert annað en hamfarir, en ekki orð um það meir.


mbl.is Fljúgandi furðuhlutir yfir Reykjavík?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bond syngjandi ABBA-lög!

Fór í bíó á fimmtudag með betri helmingnum á Mamma Mia, söngvamynd er byggir að samnefndum söngleik, þar sem ABBA-lögin eru sungin. Þetta ku vera konumynd, enda salurinn að mestu skipaður konum og saumaklúbbs og vinkonuhópar fyrirferðarmiklir.

En myndin er vel gerð og fyndin, og það allra fyndnasta er að sjá gamla góða Bond-leikarann, Pierce Brosnan, syngja ABBA-lög. Meiriháttar absúrd! Til allrar hamingju gera leikararnir sér grein fyrir að þetta sé fyrst og fremst syngjandi og dansandi grínmynd. Sönghæfileikarnir eru að vísu takmarkaðir, nema að Bond og StreepMeryl Streep kemur á óvart á því sviði. Annars skilst mér að tölvutæknin sé orðin slík að hljóðverin geti búið til frábæra söngvara úr algjörlega laglausu og fölsku fólki.

Mæli samt með Mamma Mia, fyrir karla sem konur. Gallharðir Bond-aðdáendur gætu þó sjokkerast...


Skagfirskar ísbjarnasögur

Þær grassera víst ísbjarnasögurnar í minni gömlu heimabyggð, líklegast allar komnar frá Gróu gömlu því yfirvaldið yppir öxlum. Sú magnaðasta er að þriðji ísbjörninn hafi eftir allt saman verið felldur - í leyni. Eftir að Haddý og Hrefna tilkynntu um ísbjörninn sem þær sáu, eiga vaskar skyttur og löggur að hafa arkað á svæðið, rekist á bangsa og plaffað hann niður, og að því loknu grafið hann á staðnum! Þessi saga hljómar amk asskoti skemmtilega...

Önnur saga sem heyrðist var að tvær eldri konur áttu að hafa tilkynnt löggunni á Króknum að hafa séð ísbjörn á ferð sinni um héruð Skagafjarðar. Við eftirgrennslan mun þetta hafa verið bóndi á fjórhjóli í hvítum vinnugalla! LoL

Nýlentur eftir dagsferð til Kulusuk á austurströnd Grænlands þar sem ekkert skorti á ísbjarnasögurnar. Eini munurinn frá þeim skagfirsku að þessar voru dagsannar, enda ísbirnir reglulegir gestir í mannabyggðum á þessum slóðum. Í Kulusuk er mönnum úthlutaður kvóti, veiðimennirnir mega skjóta 20 birni yfir veturinn. Síðan í vor sást til eins bangsa á vappi í þorpinu, er flestir íbúar voru í messu. Sáu þeir til bjarnarins út um kirkjugluggana og urðu bara að veifa honum, og bíða að hann færi aftur út á ísinn. Af hverju? Jú, kvótinn var búinn.....LoL

Annars var þetta mögnuð ferð, manni var siglt frá Kulusuk upp að flugvellinum innan um íshröngl og jaka. Við stýrið á mótorbátnum var einn helsti veiðimaður þorpsins, drap sinn fyrsta ísbjörn aðeins 11 ára. Þetta er sko alvöru fólk.


Einn og einn hestur...

Nafni minn ónefndur...Mikið væri tilveran fátækleg án bjarndýrsfréttanna. Hrein dásemd. Sem bangsalegur björn get ég þó vart annað en fundið til með nöfnum mínum, sem hingað hafa ratað í sumar og hlotið dapurleg örlög. En svo sem lítið annað hægt að gera. Mínir gömlu sveitungar hafa haldið vel á málum, með vaskri framgöngu Stefáns Vagns. Hver vill hafa bjarndýr í bakgarðinum! Hins vegar eru frétttirnar af fólkinu sem segist hafa séð til bjarndýra dásamlegt krydd í tilveruna. Haldiði að þessi hafi þá ekki ratað á blað:

 

Á fjörur kom fjarlægur gestur,

að fell'ann var mesta synd.

Nú er það einn og einn hestur

og ekkert að sjá nema kind....


mbl.is Björninn væntanlega rolla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finn til með nafna, en samt....

Rétt eftir að hafa jafnað okkur á plast-svaninum fræga ætluðum við á Mogganaum ekki að láta plata okkur öðru sinni, að hvítabjörn sæist á vappi í hlíðum Skagafjarðar! Ó nei.  Sem gamall Skagfirðingur fannst mér þetta líka hljóma sem besta aprílgabb, komið fram í júní og hafís víðsfjarri, og trúlegra að gárungar í sveitinni væru að koma af stað allsherjar múgæsingu, með plast-björn eða leikfangabangsa í yfirstærð. En eftir því sem fleiri fréttir birtust, í hinum traustustu fjölmiðlum, þá fóru að renna á mann tvær grímur, svo ekki sé nú talað um myndirnar sem birtust af grey birninum, nafna mínum.

Þessa fréttar snertu mann, bæði sem Skagfirðing, sem björn og ekki síður sem "vitiborna" manneskju sem vill ekki deyða nokkra lifandi skepnu! Hef aldrei haldið á riffli og fer ekki í fiskveiði nema tilneyddur, og þá með vettlinga þegar þarf að beita ormi á öngul ! Veiðin hefur verið eftír því, öll syndandi kvikyndi hafa reynt að forðast mann sem mest þau máttu og tekist bara nokkuð vel upp. Á þó að baki nokkur afrek í tjörninni við fiseldisstöðina á Hólum!

Ekki skal undra að myndskeiðin af drápi nafna míns vekji athygli hér á landi og erlendis, myndirnar sem slíkar eru sláandi og í raun einstæðar. Vafalítið er endalaust hægt að rífast um hvort ekki hefði mátt bjarga bangsa og koma honum til heimkynna sinna, en hvað áttu menn að gera? Leyfa nafna að spranga kringum mannfólkið og síðan hverfa upp á fjöll? Áttu SKagfirðingar og Húnvetningar að leggjast til svefns um kvöldið, vitandi að stærðarinnar hvítabörn gengi laus í fjöllunum? Skepna sem þess vegna gæti bankað upp á í bakgarðinum?! Ekkert er vitað enn um hvaða æti bangsi hafði náð í, hann hefði þess vegna getað verið banhungraður.

Eftir á séð tóku sveitungar mínir hárrétta ákvörðun. Það varð að fella dýrið á meðan menn höfðu einhverja stjórn á aðstæðum. Það er auðvelt fyrir okkur borgarplebbana að bulla eða blogga um eitthvað sem við höfum ekki hundsvit á. Stefán Vagn er röggsamur piltur og byrjar vel í sínu starfi sem yfirlögregluþjónn á Króknum. Leiðinlegt hins vegar hvernig nafni minn Björn Mikaelsson var hrakinn frá störfum, hann fær vonandi upreisn æru, en það hefði nú óneitanlega verið skondið að sjá á eftir honum upp Þverárhlíðar að eltast við nafna sinn, og kanski með Bangsa Moggafréttaritara á hælunum. Það hefði verið sannkallaður Ísbjarnablús.....LoL

 

 


mbl.is Hvítabjarnarmál vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var á ljósunum?!

Okkar fólk stóð sig vel í kvöld, en er ekki frá því að þau hafi verið betri og mun öruggari á fimmtudagskvöldið. Það var líka einhver sem klikkaði á ljósunum þarna í lokin í kvöld, allt í einu voru þau Regína og Friðrik Ómar komin í skuggann, og verst að það brot var endurtekið í endusýningum meðan talningin stóð yfir. Ekki að þetta hafi skipt sköpum í þeirri pólitík og nágrannakærleik sem birtast jafnan í atkvæðagreiðslunni. Norðurlandaþjóðirnar engu betri, svona er þetta bara.

En maður var svosem ekki langt frá því í spánni, skeikaði tveimur sætum með Ísland, en hafði bara ekki hugmyndaafl til að ætla að Rússinn myndi vinna. Ekkert sérstakt lag. Var með Úkraínu og Armeníu ofarlega, annað klikkaði. Líklegast er maður einni rauðvínsflöskunni fátækari....!


mbl.is Ísland endaði í 14. sæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum að tala um 10-12...

Bara svona rétt til að vera með gáfulega spá, þá sé ég fyrir mér Ísland í 10. til 12. sæti. Búinn að leggja undir eina rauðvín í vinnunni fyrir eftirtalda röð í keppninni:

1. Úkraína 2. Armenía 3. Serbía  4. Georgía 5. Svíþjóð.

Svo kemur þetta í ljós á eftir, bara gaman. ÁFRAM ÍSLAND.


mbl.is Eurovision: Topp tíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er góður knattspyrnumaður?

Glæsilegur árangur hjá Hermanni og félögum og ástæða til að samfagna sérstaklega með Eyjamanninum knáa. Frábær karakter og leikmaður inni á velli, og að mér skilst utan vallar líka. Hef líklega ekki séð hann berum augum síðan á Hótel Íslandi fyrir um 10 árum er hann steig stríðsdans uppi á borðum í sigurgleði eftir jafntefli á móti Frökkum á Laugardalsvellinum!

En þessi frétt fær mann til að hugsa um annað, þ.e. val á 10 bestu knattspyrnumönnum þjóðarinnar sem Stöð 2/Sýn stóð fyrir og gera á þætti um í sumar. Hermann Hreiðarsson er ekki í þeim hópi og heldur ekki Eyjólfur Sverrisson, en báðir geta þeir nú státað af meistaratitli með sínum félögum í atvinnumennskunni og einkar farsælum ferli með landsliðinu og sínum liðum. Þess ber að geta að þeir félagar voru í hópi 20 knattspyrnumanna sem sérstök dómnefnd á vegum Stöðvar 2 valdi, áður en val á 10 bestu var sett í val almennings, ef ég skil þetta fyrirkomulag rétt. Mat á því hver er bestur í einhverju er ætíð afar huglægt, og ekki allir á sömu skoðun í þeim efnum. En maður skyldi ætla að val á bestu knattspyrnumönnunum fari einnig eftir þeim árangri sem þeir ná með liðum sínum. Á löngum og farsælum atvinnumannsferli náði Eyjólfur tveimur meistaratitlum og var fyrstur Íslendinga til að leika í Meistardeild Evrópu.

Knattspyrna er ekki einstaklingsíþrótt, hún er hópíþrótt og þetta gleymist iðulega þegar kemur að vali á því hver er "bestur". Þegar litið er yfir lista Stöðvar 2 yfir þá 10 bestu, sé ég fljótt að Eyjólfur og Hermann ættu hiklaust að vera þar, alveg eins og t.d. Pétur Pétursson, Rúnar Kristinsson eða Sigurður Jónsson. Fótbolti snýst ekki eingöngu um knattleikni og markaskorun, hún snýst um svo margt margt annað. En þetta hefur á endanum sjálfsagt verið vinsældakosning meðal almennings og atvinnumenn sem komið hafa utan af landi, líkt og Eyjólfur og Hermann, hafa átt brattann að sækja hjá áhangendum "stóru" félaganna í borginni. Þannig er það nú bara. Því miður.


mbl.is Hermann enskur bikarmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýnar um hjartarætur...

Manni hlýnar um hjartaræturnar að lesa svona frétt, hún lætur ekki mikið yfir sér en hefur gríðarlega þýðingu í huga allra sannra Púllara. Snjallt hjá Spánverjanum að leita til gamalgróins Liverpoolmanns, sem veit hvað klukkan slær á Anfield. Vonandi nást samningar við Lee og ánægjulegt verður að sjá kunnugtlegt andlit við hlið þjálfarans á bekknum, svona líkt og var gott að sjá Phil Thompson við hlið Houllier um árið. Þetta heldur nostalgíunni og neistanum lifandi frá gullaldartímabili félagsins á síðustu öld.


mbl.is Liverpool í viðræðum við Lee
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband