Nafnar mínir í norðri

Sannarlega ekki hlýleg tilhugsun ef nafnar mínir í norðri eru að týna tölunni svona hratt. Mér varð hugsað til ungu húnanna tveggja á myndinni á Moggavefnum og framtíðar þeirra á ísilögðu hjarninu, en birnir standa saman í blíðu og stríðu, hvar í heimi sem þeir lifa og hrærast:

Lofthiti lækkar ei meir,

lífið á jörðinni deyr.

Norpa þeir kaldir

í norðrinu kvaldir

nafnarnir mínir tveir.


mbl.is Spá fækkun ísbjarna um 2/3 fyrir miðja öldina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi leggst Gaui Þórðar á koddann með góða samvisku

Frábær leikur hjá strákunum og magnað að fara af velli svekktur með jafntefli. Ísland átti skilið að sigra og við vorum klaufar að skora ekki fleiri mörk. Þetta er allt á réttri leið hjá Jolla og engin spurning að við munum leggja Norður-Íra að velli á miðvikuadaginn. Sennilega rétt að gefa Eiði Smára frí þar til hann hefur náð sér að fullu. Sem Púllara var leitt að sjá framkomuna hjá Alonso, þessum annars dagfarsprúða pilti og kannski eins gott að Torres var tekinn af velli. Alltof miklir vælukjóar þessir spænsku sparkverjar.

En einn er sá maður sem að mínu mati skammast sín eftir daginn og það er Guðjón Þórðarson. Að láta hafa sig útí drottningarviðtal á leikdegi og hrauna yfir landsliðið, þjálfarann og KSÍ er með ólíkindum og í besta falli algjört dómgreindarleysi. Og síðan étur Stöð 2 upp úr þessu viðtali fram að leik. Áður hafði hann kvartað undan því að Bjarni sonur sinn væri ekki í landsliðinu! Come on!

Ennþá er Guðjón að stæra sig af sínum árangri með landsliðið, hann gerði vissulega fína hluti en það var fyrir tíu árum þegar landsliðið var þéttara og allt önnur staða uppi í alþjóðaboltanum. Nú eru mun fleiri þjóðir farnar að gera sig gildandi á þessum vettvangi. Hvaða árangri hefur Guðjón náð síðan sem þjálfari? Hrökklast heim frá Englandi og kominn aftur heim á Skagann. Heldur maðurinn virkilega að hann geti vælt sig og bullað aftur inn sem landsliðsþjálfari? Ég ætla rétt að vona að KSÍ ráði hann ekki aftur.

Við getum verið stolt af strákunum í kvöld, þeir sýndu og sönnuðu að þeir geta náð langt gegn sterkum þjóðum - og það án Eiðs Smára og Brynjars Björns. Við þurfum að byggja upp jákvæðari og uppbyggilegri anda í kringum liðið. Sá andi sveif yfir Laugardalnum í kvöld (og honum rigndi niður líka) og með þetta veganesti er ástæða til að hlakka til næsta leiks gegn N-Írum.

ÁFRAM ÍSLAND!!!

ps. Hvað skyldi nú bullukollurinn Henry Birgir á Fréttablaðinu skrifa um þennan leik?! Ef það er ekki búið að reka hann frá því að skrifa um landsliðið, gaurinn sem krafðist þess að Jolli yrði rekinn...


mbl.is Íslendingar og Spánverjar skildu jafnir, 1:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Geggjað slöpp í ensku"

Eftirfarandi barst mér í pósti, og hefur eflaust farið víða, en þetta er bara svo fyndið að ég verð að deila því með fleirum. Sýnir meira en mörg orð hvað skrifin í netheimum geta verið skrautleg.

Sagan mun hafa byrjað þannig að kona sem var að skrifa á vefnum barnaland.is bað um hjálp við að skrifa orðið "virðingarfyllst" á ensku en hún var þá að skrifa eitthvað bréf. Konan þurfti á aðstoð að halda og skrifaði eftirfarandi:

"Hvernig segir maður "kær kveðja" ...... á ensku sorrý er ekki klár í henni og er að senda út til uk vegna gallaða dótsins."

Síðan fékk hún svar frá hjálpsömum netverja og skrifaði til baka:

"Ókei takk æðislega ég er geggjað slöpp í ensku sérstaklega að skrifa hana getiði sagt mér án þess að drulla yfir mig hvort að það sé hægt að skilja eitthvað af þessu bréfi hehe?"

Síðan birti hún þetta ágæta bréf:

"Hello. i am from Iceland and I don not speak very good English but I am gun a tray. I by a toy in Iceland from fisher price ,,little people,, and dora explorer and this toy are maid in China 2002-2007. One Dora explorer vas bay in Spain and made 2002 (the small one) and the big one I think in Iceland but I am not sure made 2003.

Are something wrong this toy or????? Waht can I do?? Can I talk to some body in Iceland so I can anther stand this better????

I hope you can anther stand what I am writing. And thank you

Respectfully .

 XXXXX."

Einhverjum sem las þetta á Barnalandi mun hafa þótt þetta fyndið og gripið til þess ráðs að þýða bréf konunnar nokkurn veginn orðrétt. Útkoman var þessi:

"Halló, Ég er frá Íslandi og ég er mafíuforingi sem talar ekki mjög góða ensku, en ég er byssa á bakka. Ég er hjá leikfangi á Íslandi frá Fisher Price, litla fólk og Dóra landkönnuður og þetta leikfang er þjónustustúlka í Kína á árunum 2002-2007. Ein Dóra landkönnuður var strönd á Spáni og náði 2002 (sú litla) og um þá stóru hugsa ég á Íslandi en er ekki viss um að hafi náð 2003.

Eru eitthvað að þessu leikfangi eða????? Get ég talað við eitthvað lík á Íslandi svo ég geti anther staðið þetta betur?????

Ég vona að þú getir anther staðið það sem ég skrifa, og takk fyrir.

Virðingarfyllst."

Þetta getur maður náttúrulega ekki toppað...!Grin


Friðargæsla á stjórnarheimilinu?

Skyldi þessi hershöfðingi frá NATO hafa talað af fúlustu alvöru er hann lýsti yfir vonbrigðum með að Ísland ætlaði að kalla friðargæslulið sitt heim frá Írak? Þetta er einn aumingjans maður! Sennilega vildi hershöfðinginn ekki móðga þessa litlu eyþjóð norður í ballarhafi sem reynir að gera sig gildandi í alþjóðasamfélaginu.

Annars er þessi ákvörðun utanríkisráðherra dálítið sérkennileg og tæpast hægt að kalla táknræna, var ekki bara hægt að finna friðargæsluliðanum önnur verkefni sem voru ráðherra þóknanleg? Var ekki bílstjóradjobb á lausu? Eitthvað kostar það að fá blessaðan manninn heim. Skil vel undrun forsætisráðherrans, það skyldi þó ekki vera að ófriður magnaðist á stjórnarheimilinu, og verkefni gætu skapast fyrir friðargæsluliðann hér heima fyrir?!

Enn og aftur kom alþýðuskáldið upp í mér, þetta bara flæðir fram endalaust:LoL

Mæla þau tungum tveim,

tæpast ég skil í þeim.

Úti er friður,

öryggisliður

einmanna sendur heim.


mbl.is Geir: Hefði ekki kallað starfsmanninn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Of vel gert til að hneykslast

Honum Jóni Gnarr og félögum hefur tekist að gera þessa auglýsingu það vel, að það er hreinlega frekar erfitt fyrir kirkjunnar menn að standa á hornum úti og fordæma verknaðinn. Útfærslan er það vel og faglega úr garði gerð, að húmorinn yfirgnæfir ekki heilagleikann. Auglýsingin mun líka skapa þarfa umræðu um kristna trú og hvernig nútímamaðurinn á að umgangast hið heilaga orð. Þarf ekki nefnilega að fara nýjar leiðir til að ná til fólks og hrista upp í því, án þess að brjóta einhver boðorð?

Hef alltaf átt erfitt með taka Jón Gnarr alvarlega, þegar hann er ekki "í persónu", en hann komst td ágætlega frá Kastljósþættinum í kvöld í viðræðu við Halldór Reynisson. Ég hygg að þegar frá líður eigi þau á Biskupsstofu eftir að sjá ljósið, og uppgötva að þessi auglýsing er ekkert annað en snilld. Eitthvað hefur nú dæmið kostað, og nokkra lúðra og viðurkenningar á hún eftir að sópa að sér. Spurning hvað Gnarrinn dregur næst upp úr hattinum, því áreiðanlega hafa verið búnar til fleiri útgáfur.

Annars er tæknin farin að bíta í skottið á okkur með þessari þriðjukynslóðartækni. Viljum við alltaf vera í mynd er við tölum í símann? Viljum við láta elta okkur út um allt? Hvar endar þetta með friðhelgi einkalífsins? Viljum við allar þessar eftirlitsmyndavélar? Viljum við allar þessar hraðamyndavélar? Viljum við sérsveitina hangandi yfir okkur á pöbbaröltinu? Ég bara spyr, en er nú kominn eitthvað út yfir efnið....


mbl.is Biskup segir nýja auglýsingu Símans smekklausa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður þungur á brá...

Athyglisvert skjal sem Bjarni hefur grafið þarna upp, og kallar á einhver svör í þessari makalausu endaleysu kringum þennan ryðdall. Ekki síður athyglisvert var að sjá útganginn á þingmanninum í sjónvarpsfréttum, og engu líkara en hann hafi verið á gangi í miðbæ Reykjavíkur og fengið einn á trantinn. Þá datt manni í hug:

Þingmaður þungur á brá,

þekktari fyrir að spauga.

Barinn og bólginn að sjá,

Bjarni með glóðarauga....

 

 


mbl.is Yfirdráttur vegna Grímseyjarferju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 32271

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband