Alzheimer light

Heyrði hreint ágætis sögu í kvöld af ónefndum Vestfirðingi, sem var jafnan utangátta og mikill prófessor til orðs og æðis. Einhverju sinni mun hann hafa verið að hella í kaffibolla sinn er hann sagði líkt og einhver annar en hann væri að tala, er bollinn var að fyllast: Takk, takk, ekki meira. Vel má vera að þetta sé þjóðsaga, en ágæt er hún engu að síður.

Sagan fékk mann til að rifja upp í huganum ýmis smávægileg atvik úr hinu daglega lífi, sem virðist benda til að maður geti verið hættulega mikið utan við sig, allt að því með Alzheimer light, þó að ekki vilji ég gera lítið úr þeim hörmulega sjúkdómi sem herjar á eldra fólk. En þetta hefur þó ágerst á ofanverðum fertugsaldrinum og nú í byrjun fimmtugsaldursins. Maður er kannski bara orðinn fjári gamall.

En það er ekki normalt að gleyma og týna símanum í tíma og ótíma, skilja peningaveskið eftir í buxum aldrei þessu vant og henda þeim svo í þvottavélina, standa upp frá básnum í vinnunni til að sækja blað úr prentaranum en koma svo til baka á borðið með vatnsglas úr eldhúskróknum, beygja á götum borgarinnar til hægri þegar maður ætlaði til vinstri, og þannig mætti lengi telja.

Þetta eru svosem ekki stórvægileg afglöp en geta verið vísbending um alvarlega þróun. En allt er á réttum stað núna og ég held ég standi bara upp og fái mér vatnssopa. Það er slökkt á prentaranum...

 

 


Dauði daðurdrottningarinnar

Merkilegt að sjá þessa fregn sömu daga og Bond-myndirnar rúlla nánast stöðugt á heimilinu, eftir að hafa fengið myndasafnið lánað komplett.

Í þeim gömlu Bondurum sem við höfum séð er yndislegt, allt að því hallærislegt, að sjá hvernig æðsti njósnari hennar hátignar og Moneypenny daðra út í eitt. Alltaf er gefið í skyn að milli þeirra sé eitthvað ástarsamband, sem er síðan í raun ekkert, enda flakkar Bondarinn á milli bólkvenna eins og honum sé borgað fyrir það, sér í lagi í hinum eldri myndum. Bond-myndir nútímans eru í raun sárasaklausar hvað kynferðislegt samband söguhetjanna varðar ef mið er tekið af fyrstu myndunum. Þar er nú ekki að sjá neitt sérstaklega mikla virðingu fyrir kvenkyninu og merkilegt að feminístar séu ekki búnir að fordæma karlrembu og kvenfyrirlitningnu gömlu Bond-myndanna. Kannski eru þeir búnir að því og það hefur farið framhjá manni, enda hefur maður svosem ekki átt upp á pallborðið hjá feministum gegnum tíðina, þessi líka mjúki maður!

En Moneypenny var þrátt fyrir allt fáguð og hélt virðingu sinni með reisn, hún var ekki konan sem stekkur upp í bólið við fyrstu kynni, líkt og bomburnar sem Bondarinn tældi til sín. Leikkonan Lois Maxwell stóð fyrir sínu, líkt og leikararnir sem túlkuðu M og Q. Þeirra er sárt saknað þó að leikrænir tilburðir standist kannski ekki algjöran samanburð við það besta sem við sjáum í kvikmyndum nútímans.

Hvað Bond-seríuna varðar, þ.e. þær myndir sem við erum búin að sjá (flökkum fram og til baka í tímaröðinni) þá stendur Sean Connery uppúr og ég hallast líka æ meira að því að Pierce Brosnan var bara fjári góður þrátt fyrir allt, amk húmorískastur. Í sumum myndum er Roger Moore herfilegur, verð ég að segja, en skánar þó með aldrinum.

Hinn nýi Bond lofar góðu, en hann er bara eitthvað annað en Bond, þvílíkt er hörkutólið orðið að hann jaðrar við að vera vélmenni í anda Schwarzenegger.

 


mbl.is „Moneypenny" látin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gaggandi gagnrýnendur

Hvort sem það var af því að ég sá Jón Sigurðsson 500-krónuseðil í Framaradressi á Fram-KR í Laugardalnum í gær eða ekki, þá rataði hann undir geislann í kvöld þegar ákveðið var að slökkva á imbakassanum og hlusta á músík. Afskaplega þægilegur og ljúfur diskur á að hlusta, og vel gert hjá stráknum. Þessir ljúfu tónar fengu mann til að rifja upp að undanfarið hefði ég hlustað á mjög áheyrileg lög  frá Magna og hinni færeysku Eivöru, af nýjum diskum þeirra. Öll eiga þau þrjú það sameiginlegt að hafa fengið heldur slaka dóma frá gagnrýnendum fyrir þessa diska sína, og undanskil ég ekkert Moggann minn hvað það varðar. Þar hefur einnig mátt lesa skrítna og full neikvæða dóma.

Eftir að hlýtt á þessa ágætu diska undrast maður þessa ólund í gagnrýnendum, og ekki að undra að þetta sé farið að pirra listamennina, sbr ummæli Magna í Mogganum um daginn. Við hverju býst þetta fólk eiginlega? Tónlistarkraftaverki á heimsmælikvarða á hverjum disk? Er eitthvað að því að búa til rólega og þægilega tónlist til afþreyingar öðru fólki? Af hverju mega tónlistarmenn ekki senda frá sér afurðir sínar, án þess að vera rakkaðir niður af einhverjum fúlum og ófullnægðum gagnrýnendum? Eftir þessa reynslu mína fær maður æ betri sýn og skilning á listaverkinu eftir Erling Jónsson myndhöggvara sem lengi stóð í anddyri Moggans í Kringlunnni og bar heitið Gaggrýnandinn.


Aukakrónurnar bara hrynja inn...

Ég tók lest í London um daginn og þá bara fylltist vagninn af öllum þessum aukakrónum úr Vörðu Landsbankans (sjá mynd) sem fylgja mér hvert sem ég fer og hvað sem ég geri. Já, alltaf er maður að græða, bara ekki eins mikið og bankinn er að græða á mér...W00t

Aukakrónurnar


Sofnað á verðinum

Fyrst er ég rakst á þessa mynd á netinu hélt ég að þarna færi kollegi minn ágætur, og mikill veiðimaður, Guðni Einars, en hann hefur ásamt öðrum skyttum nýlokið hreindýraveiðitímabilinu. Þegar betur er að gáð er þarna annar ónefndur maður, sem lítur miklu verr út en Guðni sem er orðinn svo slank og fínn að maður þarf að fara að taka sig á í ræktinni! Einhver laumaði því að mér, sem greinilega finnst ég hafa bætt of miklu á mig, að yfirskrift þessarara bloggsíðu ætti ekki að vera "BJB - SPEKI og SPÉ" heldur miklu frekar "BJB - SPIK og SPÉ".....Grin

Sofnað á veiðivaktinni


Flott 8-2-0 kerfi hjá Birmingham!

Beneitez hefði betur byrjað með fjóra sóknarmenn inn á í dag, þá Torres, Crouch, Kuyt og Voronin, til að eiga séns í vörnina hjá Birmingham. Hvernig er hægt að spila fótbolta á móti liði sem spilar leikkerfið 8-2-0?! Mínir menn kannski ekki með sinn besta dag en dagsskipunin hjá gamla Bruce-brýninu var að pakka saman í vörn og vona hið besta. Þvílík leiðindi, það á að banna svona fótbolta. Annars tel ég að Voronin komi betur út á miðjunni en fremsti maður, ekki laust við að hann sé í þyngri kantinum þessa dagana. Það verður að taka af honum nammidagana!

Verst var að heyra af 5-0 sigri Arsenal á sama tíma, nú verða Arsenal-aðdáendur á mínum vinnustað gjörsamlega óþolandi eftir helgina. En okkar tími mun koma, stend enn við þá spá mína að Liverpool standi uppi með Englandsmeistaratitilinn í vor.


mbl.is Stórsigur Arsenal - markalaust hjá Liverpool
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 32271

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband