Kaupir Stöð 2 útsendingarréttinn?!

Eins og það var nú gott framtak að bjarga Fischer úr prísundinni í Japan, þá var ýmislegt prjál og tilstand kringum þá aðgerð sem Bobby karlinn hefur tæpast verið par hrifin af, eins og vera flogið til Íslands í einkaþotu, fá fyrsta handtakið á íslenskri grund frá fréttamanni Stöðvar 2 og vera svo ekið burtu í flottræfilsjeppa sjónvarpsstjórans. Að ætla sér að jarða karlinn á Þingvöllum er svo galin hugmynd að engu tali tekur. Halda menn virkilega að það hefði verið ósk Fischers? Hvað segja nánustu ættingjar hans og unnusta? Á kannski að semja við Stöð 2 um útsendingarrétt frá athöfninni?

Menn eru alveg búnir að tapa sér, því miður. Það er hægt að sýna minningu þessa skáksnillings virðingu og sóma á margan annan máta en þann að jarðsetja hann á Þingvöllum við hlið Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar. Hvað á svo að gera þegar okkar heimsþekktustu einstaklingar falla frá? Gera Þingvelli að einhvers konar Hall of fame?! Jónas, Einar, Fischer, Björk, Eiður Smári og Kiddi Jó.


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krókurinn verði byggður upp

Hörmulegar fréttir af brunanum á Kaffi Krók og snertir alla Króksara, heimamenn sem burtflutta. Hugurinn er hjá Jóni Dan og Öldu, og áreiðanlega líka erfitt fyrir fyrri eigendur eins og Ómar Braga og Maríu Björk, sem opnuðu fyrst Kaffi Krók, að upplifa þetta. Um leið fylgja baráttukveðjur og hvatning um að byggja staðinn upp að nýju, Skagfirðingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp þótt á móti blási. Enda heyrðist mér á Jóni í kvöldfréttunum að það væri ekkert annað að gera en að byggja upp, Krókurinn má ekki við því að Jón yfirgefi staðinn, meistarakokkur á ferð, drengur góður og mætur Púllari !

Upp koma margar góðar minningar um þetta sögufræga hús, þær fyrstu frá því að Kaupfélagið rak þarna verslun og síðar þegar maður sótti sér skemmtun og góðar veitingar í mat og drykk. Húsið hafði það sterka ásýnd í gamla miðbænum að til að fylla upp í sárið verður hreinlega að byggja það upp að nýju, í sem upprunalegustu mynd.


mbl.is Stórbruni á Sauðárkróki í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með Davíð á Þingvöllum

Samgleðst Davíð Oddssyni sextugum í dag, sem og afa sáluga sem hefði orðið 101 árs. Hann hafði sérstakt dálæti á Davíð er hann var borgarstjóri en náði því miður ekki að lifa með honumDavíð Oddsson inn í glæsta forsætisráðherratíð.

Á þessum ágæta degi reikar hugurinn tíu ár aftur í tímann er við Gunnar V. Andrésson ljósmyndari lögðum leið okkar til Þingvalla til fundar við Davíð í ráðherrabústaðnum. Ég var þá á Helgarblaði DV og Davíð veitti okkur "drottningarviðtal" í tilefni 50 ára afmælisins. Við höfðum mikið fyrir þessu, tókum með okkur stóra rjómatertu með 50 kertum á og gáfum afmælisbarninu, létum hann blása á kertin og að sjálfsögðu var þetta forsíðumynd helgarblaðsins. Davíð fór á kostum á Þingvöllum og þetta er eitthvert eftirminnilegasta viðtalið á ferlinum. Það kryddaði svo stemninguna að viðtali loknu, er við fórum að gera tertunni skil, að Heimir Steinsson, er þá var prestur á Þingvöllum og staðarhaldari, bankaði upp á og settist niður með okkur. Sagðar voru sögur og brandarar um leið og tertunni var rennt niður. Yndisleg stund og verður lengi í minni.

17. janúar er magnaður dagur í sögunni, fyrir utan það að vera fæðingardagur afa, Davíðs og fleiri ágætra manna, og þá staldrar maður einkum við árið 1991. Þann dag braust Íraksstríðið fyrra út, Ólafur V Noregskonungur fór til feðra sinna og eldsumbrot hófust í Heklu. Var ekki starfandi á fjölmiðli þann daginn en var í fjölmiðlafræði uppi í Háskóla Íslands þar sem kennslustundirnar fyrstu vikurnar á eftir fóru aðallega í að kryfja fréttir af Íraksstríðinu, sem var eiginlega hið fyrsta sem fór fram nánast í beinni útsendingu á CNN. Sannarlega eftirminnilegir tímar.


Aldrei fer ég vestur...

 

Fyrir vísnavini og húmorista tel ég fulla ástæða til að vekja athygli á þessari yndislegu vísu sem Ari Jóhann Sigurðsson, söngvari með meiru frá Holtsmúla, gaukaði að mér hérna á síðunni. Hún mun vera eftir Sigurð Hansen frá Kringlumýri í Skagafirði, sem er með snjöllustu og fyndnustu hagyrðingum landsins.  Lét Sigurður vísuna falla á Bessastöðum er hann var þar mættur ásamt öðrum kórdrengjum í Heimi, og tilkynnt var að tónlistarhátíðin "Aldrei fór ég suður" hefði fengið Eyrarrósina, verðlaunin sem Heimir var einnig tilnefndur til. Út úr þessum línum má lesa nett vonbrigði Sigurðar:

Ég var alinn upp í sveit

alltaf talinn bestur.

Eitt er víst að alþjóð veit

að aldrei fer ég vestur.


Ég er vinur DAS

Nýstárleg auglýsing hjá SÍBS, þar sem höfðað er til vinargreiða okkar, samvisku og góðvildar. Ég er vinur SÍBS, segir kona og þylur væntanlega upp happdrættisnúmerið sitt sem hún hefur verið með í árafjöld, kannski án þess að hafa nokkurn tímann unnið krónu. Þannig er amk með mig hjá DAS. Ég er vinur DAS, m.a.s. mjög góður vinur. Hef spilað þar í svo mörg ár að ég man ekki hvað þau eru orðin mörg. Framlag mitt er áreiðanlega farið að skipta hundruðum þúsunda króna. Hins vegar man ég mjög vel að ég hef aldrei unnið, ekki einu sinni, en grunsamlega margir í kringum mig með svipaða talnarunu unnið oftar en einu sinni. Þessi útdráttar-tölva mætti nú fara að muna eftir mér!

Það er gott að geta gert góðverk og stutt góð málefni. Ég er ekki bara vinur DAS, ég er vinur Krabbameinsfélagsins, ég er mjög oft vinur Lottósins og Lengjunnar, ég er vinur Barnaheilla um jólin þegar samtökin senda mér jólakort og sama má segja um Rauða krossinn. Og svo er ég vinur RÚV, líkt og allir hinir sem greiða afnotagjöldin... 

En allt er þetta nú í gamni sagt, áreiðanlega á ég eftir að fá þetta framlag til DAS margfalt til baka. Til þess verð ég að tóra fram á elliárin, geri það þó tæpast með því að sitja á rassgatinu allan liðlangan daginn og bulla einhverja bölvaða vitleysu...W00t


Alveg eru þessi frístundakort mögnuð

Ég var ekki að uppgötva þessi frístundakort, og þá snilli sem að baki þeim býr, af neinni alvöru fyrr en í gær þegar maður á einu bretti ráðstafaði 50 þúsund krónum hjá krökkunum í fótbolta og ballett næstu mánuðina. Notaði kortið fyrir guttann að vísu í haust, en sú upphæð var svo "lítil" að hún tikkaði ekki í bókhaldinu. En það gerir 50 þús kall. Þessir peningar hefðu hvort eð er farið í að greiða þessi æfingagjöld að fullu, án tilvistar frístundakorta, þannig að hvað sem segja má um pólitíkusa í borginni og þeirra frammistöðu síðustu mánuði, þá er þetta líklegast einhver mesta kjarabót sem fjölskyldufólk hefur fengið í mörg herrans ár. Fyrir framtakið skal þakkað hér með, hver sem átti ú hugmyndina fyrstur. Man það ekki lengur.

Nú er bara að finna ráð til að eyða þessum 50 þúsund kalli sem maður var að spara sér...LoL


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband