Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Arnaldur allur á tjaldið

Ánægjulegt að heyra af þessum jákvæðu dómum, myndin á þetta allt skilið og meira til. Mýrin er með allra bestu bíómyndum okkar til þessa enda efniviðurinn ekki amalegur úr penna Arnaldar, og Baltasar kann sitt fag þegur kemur að kvikmyndagerð. Og það er auðvitað engin tilviljun að báðir tengjast Skagafirðinum mínum, Baltasar þar orðinn góður og gegn íbúi og Arnaldur hálfur Skagfirðingur í föðurætt!

Ekki er síður ánægjulegt að heyra að gera eigi fleiri kvikmyndir eftir bókum Arnaldar, nú sitja þeir félagar yfir handriti úr Grafarþögn. Eftir að hafa lesið allar bækur höfundarins leyfi ég mér að fullyrða að þær geta langflestar sómt sér vel á hvíta tjaldinu, eða sem sjónvarpsþættir, og í raun hefði átt að byrja á byrjuninni, og gera kvikmynd byggða á Napóleon-skjölunum, það yrði magnaður hasar, rammíslenskur með bandarísku ívafi.

Ég hef hvorki mikla spádómsgáfu eða miðilshæfileika, en það er eitthvað sem segir mér að samstarf Baltasars og Arnaldar eigi eftir að skila okkur miklu í náinni framtíð.... gott ef ekki Óskar!

 


mbl.is Baltasar: Getur breytt öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bolabrögð gegn Barða?

Skeytasending Friðriks Ómars til áhorfenda, glymur hæst í tómri tunnu, gefur til kynna að mikillar gremju hafi gætt meðal keppenda útaf vinsældum Mersedes Club og lags Barða Jóhannssonar, Ho,ho ho. Að Júróvisjón-klíkan hafi átt sér þá ósk heitasta að Silvíunæturævintýrið myndi ekki endurtaka sig. Sjálfsagt hafa allir reiknað með fyrirfram að Ho, ho, ho myndi vinna, bæði þjóðin og flytjendur sjálfir. Brúnkusprautuðu sterabúntin í Mersedes Club höfðu farið mikinn í fjölmiðlum fyrir keppnina, einkum á Stöð 2 og Bylgjunni, og gengið út frá því að þau myndu vinna. Eftir á að hyggja gæti sú sigurvissa hafa verið mistök, og færri því séð ástæðu til að eyða símtali eða sms á lagið.

En skyldi Sjónvarpið hafa gengið í lið með hinum keppendunum og stuðlað að ósigri Barða? Atkvæðagreiðsla álitsgjafanna Erps, Selmu og Þorvaldar í miðri símakosningu var amk athyglisverð, þau beðin að spá fyrir þremur efstu sætum og merkilegt nokk, ekkert þeirra nefndi Ho, ho, ho á nafn, bara eins og það væri ekki til. Kannski hafði Palli Magg gefið út þá dagskipun að allt yrði gert sem hægt væri til að koma í veg fyrir sigur Barða, til að endurtaka ekki grínið kringum Silvíu Nótt!! Nei, ég segi nú bara svona.

Palli Magg getur amk sofið rólegur yfir því að við þurfum ekki að halda keppnina árið 2009. Sykurpúðarnir Friðrik og Regína munu ekki fleyta okkur svo langt. Ho, ho, ho hefði þó verið líklegra til að koma okkur upp úr undanrásunum, hvað sem segja má um það framlag. Ég er nefnilega svolítið hræddur um að skot Friðriks Ómars eigi eftir að fylgja honum út keppnina og hitta hann illa fyrir.


mbl.is Eurobandið fer til Serbíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dr Jekyll & Mr Hyde á Anfield...

Loksins, loksins kom sigur hjá mínum mönnum, og það meira en verðskuldaður. Miðað við tapið í bikarnum á móti Barnsley er eins og Dr. Jekyll og Mr Hyde hafi tekið sér bólfestu í liðinu. Þetta var amk ekki sama liðið og um helgina, það er eins Benitez kunni bara að stjórna liðinu í Meistaradeildinni, um leið og leikurinn heitir eitthvað annað þá tekur Herra Hyde völdin. Mætti maður þá sjá meira af Doktor Jekyll, í kvöld voru mínir menn trítilóðir úti um allan völl og uppskáru eftir því. Meira að segja Kátur skoraði ...!  Batnandi mönnum er best að lifa.

Útileikur í Mílanóborg eftir þrjár vikur, við erum 2-0 yfir í hálfleik, og nokkuð ljóst að Ítalirnir munu krydda spaghettíið hressilega þann daginn. Spurningin bara hvort mótherjinn á vellinum verði Jekyll eða Hyde...DevilWoundering


mbl.is Liverpool sigraði Inter 2:0
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn góður úr golfinu

Ágætur frændi minn og kylfingur sendi þennan myndabrandara, sem aðeins er fyrir kylfinga af karlkyni !LoL

 

ps. Smá tæknileg mistök, er ekki hægt að setja PPS-skjal í bloggið? Einhver??? Þetta er amk ekki að birtast, eins og brandarinn er djö... góður!


Mælir sá manna heilastur!

Hann Tommy gamli Smith er aldeilis ekki eini Púllarinn sem hættur er að skilja upp né niður í Benitez. Innáskiptingar og taktík Spánverjans að undanförnu hefur oft á tíðum verið undarleg, og miðað við hvernig liðið hefur verið að spila var það stórhættulegt að stilla ekki upp sínu sterkasta liði í bikarnum. Þar var jú enn von um titil, eða þar til á 93. mínútu í leiknum gegn Barnsley að náðarhöggið kom, líklegast enn einn naglinn í þjálfarakistu Benitez. Hann virðist ekki ná meiru út úr þessu liði og best að leyfa öðrum að spreyta sig. Hann er búinn að fá sinn tíma og sín tækifæri.

Verra var þó að sjá mann eins og Crouch ekki nýta færin sín, eins og maður hefur nú stutt hann með ráðum og dáð inn í byrjunarliðið. Það vantar orðið allt sjálfstraust í liðið og ekki er útlitið bjart fyrir meistaradeildarleikinn í vikunni gegn Inter Milan. Ljótt að segja það, en miðað við frammistöðuna undanfarið eigum við ekki skilið að komast áfram í meistaradeildinni. Liðið þarf að halda vel á spöðunum ætli það sér að halda meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni. Það þarf nýjan karl í brúna og einhverja alvöru liðsmenn á dekkið, við viljum ekki fleiri B-menn!


mbl.is Goðsögn Liverpool gagnýnir Benítez
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimir á YouTube

 

Karlakórinn Heimir nýtir sér nýjustu tölvutækni að sjálfsögðu, þótt kominn er á níræðisaldurinn, og búinn að setja á You Tube myndbandsbrot með laginu "Nú er söngurinn hljóður og horfinn" (Áfram veginn) sem Sigfús í Álftagerði syngur svo undurvært og fallega. Lagið flytur hann ásamt kórnum í söngsýningu til heiðurs Stefáni Íslandi, sem slegið hefur í gegn í vetur. Nú er kórinn aftur á leiðinni suður með sýninguna, vegna fjölda áskorana, og verður í Langholtskirkju í Reykjavík laugardaginn 23. febrúar kl. 15. Í bakaleiðinni norður verður komið við á Skaganum með dagskrána um kvöldið.

Hvet alla sem ekki hafa séð þessa sýningu að gera það, hún er hreint mögnuð.


Fjárfestingaráðgjöf...

Hvaða hlutabréf ætti maður nú að kaupa? Þessa spurningu fær maður oft yfir sig, og getur litlu svarað af einhverju viti, ekki síst miðað við núverandi aðstæður á mörkuðum. Það kæmi álíka gott svar og Davíð Oddsson mun hafa gefið fjölmiðlamönnum í Seðlabankanum í morgun, þegar hann var spurður hvernig hann mæti stöðu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar í borgarpólitíkinni. Þú getur alveg eins spurt mig um stöðu Huddersfield í enska boltanum, á Davíð að hafa sagt. Alltaf góður, karlinn.

En hér kemur ágætis ráðgjöf um fjárfestingar, sem mér barst. Alveg eins góð og hver önnur:

"Hér fyrir neðan koma pælingar um hlutabréfamarkaðinn, og hvaða hluti væri skynsamlegast að eyða í ef þú ert að spá í að fjárfesta 1000$ í eitthvað sniðugt. Ef þú hefðir keypt hlutabréf í Nortel fyrir þúsund dollara fyrir ári síðan, þá væru þau 49 dollara virði í dag. Ef þú hefðir valið Enron þá væru bréfin þín 16,5 dollara virði miðað við að höfuðstóllinn hefði verið 1000 dollarar. Ef WorldCom hefði verið fyrir valinu væri 5 Dollarar eftir. Ef þú hefðir eitt 1000 dollurum í Delta Air Lines væri verðmæti þeirra 49 dollarar í dag. En, ef þú hefðir bara farið í áfengisverslun og eitt þúsund dollurum í bjór í dós, drukkið hann allan á einu ári, farið svo með dósirnar í endurvinsluna, þá ættir þú 214 dollara.

Miðað við niðurstöðurnar hér að ofan, þá er besta fjárfestingin sem þú getur gert í dag að drekka mikið af öli og fara svo með umbúðirnar í endurvinnsluna."


Í kóngsins Köben

Karlinn brá sér með kerlingunni til Köben um síðustu helgi, og slapp milli lægða, komumst klakklaust alla leið og án þess að þurfa bíða mínútu til eða frá í Leifsstöð eða Kastrup. Veðurguðirnir héldu sér sem betur fer til hlés. Verst hins vegar í Kastrup hvað gekk lengi að innrita hópinn, aðeins tveir að innrita framan af í alls sex flug, og dýrmætur bjór- og búðartími tapaðist í flugstöðinni.

Að öðru leyti var ferðin dásamleg, alltaf gaman að upplifa Köben barnlaus og án Tivoli, geta vafrað um á böbbunum og almennilegum dönskum veitingastöðum, ekkert skyndibitakjaftæði. Danskt smörrebröd hjá Idu Davidsen, andabringa á Lille Apotek og ölkrús á Hvids Vinstue og Carlsberg safninu. Fórum reyndar ekki á Thorvaldsens safnið en alltaf jafn dapurlegt að lesa það í bæklingum og túristabókum að hvergi er minnst á íslenskan uppruna listamannsins. Þarna hefur íslenska sendiráðið í Köben verk að vinna.

Vilji Íslendingar prófa einhverja aðra "Kringlu"  en Magasin du Nord og Illum þá bendi ég þeim á Fiskitorgið, nýlega verslunarmiðstöð skammt frá miðbænum, örskotsstund með lest frá Hovedbanegarden á Dybbelsbro. Þar er líka hægt að fara í bió í leiðinni í Cinenmax og rölta yfir á Íslandsbryggju. Og fyrir spennufíkla mæli ég með því að prófa að fara í lest eða Metro án þess að borga krónu, vorum þarna í þrjá daga og sáum aldrei nokkra sálu að athuga hvort farþegarnir voru með miða eða ekki. Eyddum engu að síður formúgu fjár í lestarmiða fram og til baka. En komist upp um svikin þá er maður sex þúsund krónum fátækari !


Aðeins ein lausn í spilunum

Íslenskir kjósendur hafa löngum þótt óendanlega umburðarlyndir og trygglyndir sínum flokkum, en nú hygg ég að sjálfstæðismenn séu búnir að fá sig fullsadda af þvælunni kringum þetta REI-mál hérna í borginni. Nú hefur maður stutt flokkinn gegnum súrt og sætt í tvo áratugi en á síðustu vikum og mánuðum hefur það hvarflað að manni um stund að segja sig úr flokknum til að mótmæla ruglinu sem viðgengst hefur í borgarstjórnarflokknum. Það er kominn tími að hreinsað verði til og nýjum oddvita teflt í fremstu röð. Þar er hins vegar vandi að velja og til að Sjálfstæðislflokkurinn öðlist aftur trú og traust borgarbúa þarf einfaldlega einhvern nýjan mann, utan borgarstjórnar í dag, til að hefja baráttu fyrir næstu kosningar.

Átakanlegt hefur verið að horfa upp á flótta núverandi oddvita flokksins og tímabært að hann uppgötvi sinn vitjunartíma. Vilhjálmur hefur gert margt gott gegnum tíðina og staðið sig vel í sínu hlutverki, en í REI-málinu er eins og hann hafi látið blekkjast af kappsömum kaupsýslumönnum og embættismönnum sem sáu gullið glóa þegar óbeisluð orkan var annars vegar. Og fleiri stjórnmálamenn en Vilhjámur hafa látið blekkjast, og sumir þeirra eru þegar horfnir af pólitíska sviðinu. Það getur ekki kallast að hafa axlað pólitíska ábyrgð á málinu, að fá tækifæri til að setjast aftur í borgarstjórastólinn. Íslenskir kjósendur eru sem fyrr segir umburðarlyndir en ekki algjör fífl.


mbl.is „REI - ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að axla ábyrgð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband