Færsluflokkur: Bloggar
13.9.2008 | 21:50
Góður í tippinu
Mikið helv... náði ég að spá rétt fyrir þessum úrslitum, verst að maður lagði ekki eitthvað undir. Að vísu náði maður ekki alveg að spá rétt fyrir um markaskorarana, en gott ef það var ekki Robbie Keane sem þrýsti á sjálfsmarkið hjá United. Kominn tími til að leggja lærisveina Fergusons að velli á Anfield, og það sannfærandi og án Torres. Innkoma Gerrard hafði jákvæð áhrif og þessi Rieira lofar góðu. Kátur hefur sjaldan verið sprækari en ég fer aldrei ofan að því að mínir menn sakna Crouch. Nú verður liðið að treysta á kantspilið, það þýðir ekkert að senda háa bolta fram, þetta eru bara stubbar og þeir þurfa ljósastaur sér við hlið.
Uppskera dagsins lofar vonandi góðu, mínir menn enn taplausir á toppnum og ástæða til að óska Rafa gamla til hamingju með fyrsta sigurinn á móti United. Næst er það léttur leikur á móti Stoke, það verður bara djók...
![]() |
Babel tryggði Liverpool langþráðan sigur á Manchester United |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.9.2008 | 14:24
Útsvarið ekki greitt í ár
Varð þess mikla heiðurs aðnjótandi að vera boðið að keppa í Útsvari, fyrir hönd minnar gömlu heimabyggðar. Alltaf gott að einhver muni eftir manni, þó að ég hafi ákveðinn mann grunaðan um að hafa bent á mig. En hafi hann og allir aðrir þökk fyrir ofurtrúna á mína vísdómsgáfu. Eftir nokkurra sekúndna umhugsun sagði ég nei takk, en fyrir utan hógværð og afskaplega litla þörf á að láta ljós mitt skína frammi fyrir alþjóð í beinni útsendingu, þá átti þetta snögga svar sér afar djúpar rætur. Leita þarf allt aftur til áranna 1985 eða 1986, er ég tók þátt í Gettu betur fyrir hönd FÁS, líklegast á árdögum þeirrar keppni.
Minningin frá þeirri viðureign er vægast sagt hryllileg, og framkallaði martraðir lengi framan af. Ekki vantaði að maður var í hörkuliði, með Inga Vaff og Jóni Jónssyni, þjóðfræðingi og galdramanni frá Ströndum. Liðsstjórinn var sjálfur Geirlaugur Magnússon, ljóðskáld og frönskukennari. Blessuð sé minnig hans. Það vantaði ekki öflugan undirbúning, og vel skipulagðar æfingabúðir. Svo skemmtilega vildi til að við drógumst gegn MS í fyrstu viðureign, í beinni útsendingu frá útvarpssal við Skúlagötu. Þetta er svo langt síðan! Stjórnandi var Vernharður Linnet, og tók sá ágæti maður vel á móti okkur. Við vorum hins vegar fáliðaðir, með stuðningsmannalið sem teljandi var á fingrum annarar handar, á meðan MS-ingar troðfylltu salinn.
Við vissum lítið um mótherja okkar á þeim tíma, en síðar áttu þeir eftir að vera einir mestu Gettu betur banar í sögu keppninnar. Að sjálfsögðu er hér átt við tvíburabræðurna Sverri og Ármann Jakobssyni. Þeir rúlluðu okkur FÁS-urum upp og við sáum aldrei til sólar, fórum í rauninni á taugum. Svo einfalt var það.
Síðustu stundirnar fyrir útsendingu eru enn í fersku minni, er við biðum inni í einhverju bókaherbergi í útvarpshúsinu. Við að farast úr stressi á meðan tvibbarnir voru pollrólegir og bókstaflega soguðust að hillunum, náðu líklega að lesa þarna nokkrar bækur á mettíma. Og hvernig þeir handléku bækurnar. Eins og þeir héldu á gulli. Eftir á var það bara sannur heiður að verða þeirra fyrsta fórnarlamb, svona þegar martröðunum var lokið, því við tók áralöng sigurganga þeirra í Gettu betur.
A moment to remember... en vonandi gengur Skagfirðingum vel í Gettu betur í vetur. Ég mun að sjálfsögðu njóta þess að horfa á, makindalega upp í sófa og fussa og sveia, uss maður hefði nú getað svarað þessari....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.9.2008 | 14:08
Þá verður að skora mörk...
Rétt að vona að Jónmundur Kárvígur hafi rétt fyrir sér, nú er kominn tími á að leggja þessa andskota í United, og til þess þarf að skora mörk, og þá fleiri en andstæðingurinn. Eins og einn góður þjálfari sagði um árið um sóknarmann sinn; ef hann hefði hitt á markið þá hefði hann skorað! Mætti halda að Kjartan Sturluson hefði verið á milli stanganna, slík er vantrú á markvörð andstæðingsins í þessum ummælum.
Eins gott að mínir menn sigri, nóg leggur maður á sig á morgun, að keyra heila 280 km til að sjá leikinn. Spái hér með 2-1. Torres og Keane skora. Já já, sei sei...
![]() |
Carragher: Náum vonandi þremur stigum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 13:09
Stungið upp í starrann!
Sá út um eldhúsgluggann í morgun að ég hafði sigur á starranum, tókst að hrekja hann á brott, helvískan! Það var heill herskari á bílskúrsþakinu, líkt og boðuð hefði verið jarðarför eða kallað til fjöldafundar. Enginn skal þó halda að ég haf stútað einu stykki, það fer fjarri, enda annálaður dýravinur. Mér tókst hins vegar að koma í veg fyrir frekari hreiðurgerð í stokk undir þakrennu bílskúrsins, einfaldlega smúlaði stokkinn og negldi fyrir stokkendana með krossviðarplötum. Nú verða starrarnir bara að leita sér hreiðursstað í næsta garði.
Af heilsufarsástæðum var þetta nauðsynleg aðgerð, hafði verið bitinn nokkrum sinnum af starrafló með því að einu að opna bílskúrinn eða fara út með ruslið. Flugur og flær virðast eiga greiða leið að minni hvítu húð, enda löngum verið gæðablóð! Þó ljótt sé að segja það horfði ég sigri hrósandi á starrana reyna að flögra inn í lokaðan stokkinn, þeir gerðu nokkrar tilraunir og flugu síðan burtu - yfir í næsta garð. Verði nágrönnunum að góðu.....
ps Án gríns, þá þurfa borgaryfirvöld að fara stemma stigum við starranum, hann er orðinn jafnmikið skaðræði og mávurinn hér í Hlíðunum. Það er hending að maður sjái skógarþröst lengur, þann yndislega fugl
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.9.2008 | 19:21
Tók sig upp gamalt fagn...
Svei mér ef maður sat bara ekki spenntur við skjáinn allan leikinn, meira að segja fjölgaði áhorfendum hér á heimilinu þegar leið á. Sannarlega mögnuð úrslit og litlu munaði að Veigar Páll kláraði þetta í sinni fyrstu snertingu. KOminn tími á að við hefðum heppnina örlítið með okkur, en það kom samt á daginn að Norðmenn eru ekkert sérstakir í fótbolta og hafa aldrei verið. Eiður Smári gerði það sem hann gerir best, frábær aukaspyrna, annars virkaði kappinn stundum þungur og seinn að gefa tuðruna. Það eru þarna nokkrir ungir piltar að stimpla sig inn, eins og Aron Einar, Birkir Már og Bjarni Ólafur. Endurkoma Heiðars er ánægjuefni, en spurning hvort Veigar Páll hefði mátt koma fyrr inná. Ætlaði fyrst ekki að þekkja hann í sjón, svo mörg kíló eru fokin hjá honum. Ekki að undra að hann sé farinn að skora mörk svona fír og flamme.
Þá er bara að fletta upp pilsunum á Skotunum á miðvikudag og berhátta þá. Ég væri búinn að kaupa mér miða væri maður ekki að vinna. Áfram svo. Svei mér ef maður fann ekki silfurbragð í munni í mótslok.
![]() |
Frábær úrslit í Osló |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2008 | 22:16
Allt getur gerst í boltanum
Setti að gamni inn tvö myndbönd hér á síðuna sem manni var bent á. Gjörsamlega óborganleg, og sýna að allt getur gerst í fótboltanum, þessari æðstu íþrótt allra íþrótta. Í vinnunni gátu menn horft á þetta aftur og aftur, og sumir við það að fá hjartaáfall. Hrossahlátrinum ætlaði aldrei að linna.
Endilega kíkið á þetta hér til hliðar, hláturinn lengir lífið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2008 | 22:28
"Heilalausi hálfvitinn þinn"
Einhverju sinni hefur maður heyrt ótrúlegar sögur úr umferðinni þar sem ökumenn missa gjörsamlega stjórn á skapi sínu, rjúka jafnvel út úr bílunum á rauðum ljósum og ausa svívirðingum yfir næsta bílstjóra sem eitthvað á að hafa gert af sér. Í dag fékk maður að reyna þetta á eigin skinni. Hér kemur sönn saga úr umferðinni í Reykjavík, dagsönn.
Saklausi sveitapilturinn hélt í einfeldni sinni að svona geðstirt og galið fólk væri bara ekki til. Mér varð það á að svara í farsímann er hann hringdi, akkúrat þar sem ég var staddur á gatnamótum. Það liðu varla nema tvær sekúndur þar til að sá eini bíll sem var fyrir aftan mig fer að hamast á flautunni með þvílíkum látum. Engu munaði að maður tæki snögglega af stað án þess að horfa til hægri eða vinstri, með ófyrirséðum afleiðingum. Eftir að hafa tekið beygjuna hélt maður að sá óþolinmóði hefði tæmt úr skálum reiði sinnar. En aldeilis ekki. Hann fór framúr mér og stöðvaði fyrir framan bílinn minn við næstu gatnamót, sneri sér við með kreppta hnefana og hefur áreiðanlega öskrað þessi ósköp. Hefðu ekki aðrir bílar verið farnir að flauta á hann, hefði sá skapstyggi rokið út úr bílnum sótreiður.
Ég hélt bara áfram að tala í símann, enda símtalið mjög mikilvægt, og veifaði manninum. Og þetta var ekki búið. Við þessi gatnamót áttum við sömu leið, og ók ég í humátt á eftir. Við næsta strætóskýli leggur vinurinn út í kant, og ég ákveð að aka upp að hlið honum, nógu nálægt til að hann gæti ekki opnað hurðina bílstjóramegin (sniðugur strákurinn!). Ég skrúfa niður rúðuna og spyr hvað sé eiginlega málið. Kemur þá ekki þessi líka þrumuræðan, um að ég hagaði mér eins og algjör asni í umferðinni, væri "heilalaus hálfviti" og ég veit ekki hvað. Fúkyrðaflauminum ætlaði aldrei að linna og það mátti maðurinn eiga, að hann kunni blótsyrðin utanbókar. Þetta bókstaflega frussaði útúr honum.
Ákvað að eiga ekki frekari orðastað við þennan rudda og ók af stað, hélt satt að segja að hann myndi elta mig uppi, en sá hann í baksýnisspeglinum hverfa inn í næsta húsasund.
Nú veit maður hvernig svona ruddar geta litið út. Þeir aka um á flottum og nýjum bíl, það vantaði ekki, stífbónaður og rauður amerískur kaggi, og sennilegast geta Skódaeigendur orðið fyrir einelti á götum úti frá svona gaurum. Ruddarnir geta litið vel út, á miðjun aldri, vel greiddir með grátt í vöngum, með gáfumannagleraugu, áreiðanlega í Armani-fötum með ermahnappa, snobbhænsn og hrokafullir broddborgarar. Þessi var líklegur til að búa í einum af fínu götum Árbæjarhverfis, situr á kvöldin fyrir framan arininn með rauðvinsglas í hönd og Mozart á fóninum, og telur sig heiminn hafa höndum tekið. Séu svona persónur foreldrar þá er fyrirmyndin ekki falleg.
Vinurinn mætti athuga blóðþrýstinginn eða fara á reiðistjórnunarnámskeið. Sá strax fyrir mér myndina Anger Management með Jack Nicholson og Adam Sandler. Efast samt um að þessi myndi fást til að mæta á námskeið og hvað þá útskrifast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2008 | 20:15
Riðill dauðans
![]() |
Riðlar Meistaradeildarinnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.8.2008 | 22:34
Hversu oft verður þetta ,,hjúkket" ?
Sem gegnheill Púllari til ríflegra þrjátíu ára veit maður varla hvort maður á að gráta eða gleðjast eftir svona leik. Auðvitað átti liðið að vera búið að afgreiða þennan leik fyrir framlengingu en Kátur bjargaði heiðri liðsins og allra sem að því standa. Það hefði verið stórskandall og nánast ófyrirgefanlegt ef liðið hefði ekki komist áfram í Meistaradeildinni. En maður hefur alltaf borið fyllstu virðingu fyrir Standard Liege, frá því að Ásgeir Sigurvinsson var þar kóngurinn, og þetta lið kom manni á óvart, það verður að segjast. Vonandi verða þeir Belgíumeistarar í vetur!
Rauði herinn sér manni fyrir spennuleikjum, það verður ekki tekið af honum, og eins gott að vera ekki kominn á tungurótartöflur, þá væri skammturinn fyrir veturinn löngu búinn - og ekki enn kominn september!
![]() |
Kuyt bjargaði Liverpool á örlagastundu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.8.2008 | 22:10
Gríðarlegt efni á ferð
Leitt að þeir Grétar Rafn og Heiðar komust ekki áfram með sínum liðum, en litlu munaði að annar Íslendingur, Aron Einar Gunnarsson, kæmist áfram með Coventry í framlengdum leik gegn Newcastle. Úrvalsdeildarliðið hafði betur en gaman var að fylgjast með Aroni. Þarna er gríðarlegt efni á ferð, sem á eftir að láta mikið að sér kveða í framtíðinni, sjáiði til. Eitilharður nagli, með ágæta boltatækni og getur tekið á harðasprett. Og innköstin, þvílíkur kraftur. Upp úr einu slíku náði Coventry að jafna og tryggja sér framlengingu. Vonandi að þessi drengur sleppi með meiðsli í þeim harða bolta sem spilaður er á Englandi, ekki síst í 1. deildinni.
Ef fleiri eintök af Aroni fara að sjást með íslenska landsliðinu þá gæti maður öðlast trú á þeim mannskap á ný. Kynslóðaskipti eru að eiga sér stað og vonandi ná hinir ungu atvinnumenn að springa út.
![]() |
Bolton slegið út af 2. deildarliði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
-
annapala
-
attilla
-
bjarnihardar
-
davidlogi
-
esv
-
elvabjork
-
ellikonn
-
eysteinn-thor
-
gudrunvala
-
hoskuldur
-
jamesblond
-
kalli33
-
kristjanb
-
raggibjarna
-
ragnhildur
-
rungis
-
naiv
-
seth
-
sigurdurarna
-
soli
-
laufabraud
-
gudni-is
-
gusti-kr-ingur
-
businessreport
-
ornsh
-
vitinn
-
gattin
-
muggi69
-
sverrirth
-
sveitaorar
-
gudrununa
-
okurland
-
steinunnolina
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (20.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Júní 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Febrúar 2010
- Janúar 2010
- Desember 2009
- Nóvember 2009
- Október 2009
- September 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Júní 2009
- Maí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júlí 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007