Þá verður að skora mörk...

Rétt að vona að Jónmundur Kárvígur hafi rétt fyrir sér, nú er kominn tími á að leggja þessa andskota í United, og til þess þarf að skora mörk, og þá fleiri en andstæðingurinn. Eins og einn góður þjálfari sagði um árið um sóknarmann sinn; ef hann hefði hitt á markið þá hefði hann skorað! Mætti halda að Kjartan Sturluson hefði verið á milli stanganna, slík er vantrú á markvörð andstæðingsins í þessum ummælum.

Eins gott að mínir menn sigri, nóg leggur maður á sig á morgun, að keyra heila 280 km til að sjá leikinn. Spái hér með 2-1. Torres og Keane skora. Já já, sei sei...


mbl.is Carragher: Náum vonandi þremur stigum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stungið upp í starrann!

starriSá út um eldhúsgluggann í morgun að ég hafði sigur á starranum, tókst að hrekja hann á brott, helvískan! Það var heill herskari á bílskúrsþakinu, líkt og boðuð hefði verið jarðarför eða kallað til fjöldafundar. Enginn skal þó halda að ég haf stútað einu stykki, það fer fjarri, enda annálaður dýravinur. Mér tókst hins vegar að koma í veg fyrir frekari hreiðurgerð í stokk undir þakrennu bílskúrsins, einfaldlega smúlaði stokkinn og negldi fyrir stokkendana með krossviðarplötum. Nú verða starrarnir bara að leita sér hreiðursstað í næsta garði.

Af heilsufarsástæðum var þetta nauðsynleg aðgerð, hafði verið bitinn nokkrum sinnum af starrafló með því að einu að opna bílskúrinn eða fara út með ruslið. Flugur og flær virðast eiga greiða leið að minni hvítu húð, enda löngum verið gæðablóð! Þó ljótt sé að segja það horfði ég sigri hrósandi á starrana reyna að flögra inn í lokaðan stokkinn, þeir gerðu nokkrar tilraunir og flugu síðan burtu - yfir í næsta garð. Verði nágrönnunum að góðu.....Tounge

ps Án gríns, þá þurfa borgaryfirvöld að fara stemma stigum við starranum, hann er orðinn jafnmikið skaðræði og mávurinn hér í Hlíðunum. Það er hending að maður sjái skógarþröst lengur, þann yndislega fugl


Tók sig upp gamalt fagn...

Svei mér ef maður sat bara ekki spenntur við skjáinn allan leikinn, meira að segja fjölgaði áhorfendum hér á heimilinu þegar leið á. Sannarlega mögnuð úrslit og litlu munaði að Veigar Páll kláraði þetta í sinni fyrstu snertingu. KOminn tími á að við hefðum heppnina örlítið með okkur, en það kom samt á daginn að Norðmenn eru ekkert sérstakir í fótbolta og hafa aldrei verið. Eiður Smári gerði það sem hann gerir best, frábær aukaspyrna, annars virkaði kappinn stundum þungur og seinn að gefa tuðruna. Það eru þarna nokkrir ungir piltar að stimpla sig inn, eins og Aron Einar, Birkir Már og Bjarni Ólafur. Endurkoma Heiðars er ánægjuefni, en spurning hvort Veigar Páll hefði mátt koma fyrr inná. Ætlaði fyrst ekki að þekkja hann í sjón, svo mörg kíló eru fokin hjá honum. Ekki að undra að hann sé farinn að skora mörk svona fír og flamme.

Þá er bara að fletta upp pilsunum á Skotunum á miðvikudag og berhátta þá. Ég væri búinn að kaupa mér miða væri maður ekki að vinna. Áfram svo. Svei mér ef maður fann ekki silfurbragð í munni í mótslok.


mbl.is Frábær úrslit í Osló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt getur gerst í boltanum

Setti að gamni inn tvö myndbönd hér á síðuna sem manni var bent á. Gjörsamlega óborganleg, og sýna að allt getur gerst í fótboltanum, þessari æðstu íþrótt allra íþrótta. Í vinnunni gátu menn horft á þetta aftur og aftur, og sumir við það að fá hjartaáfall. Hrossahlátrinum ætlaði aldrei að linna.

Endilega kíkið á þetta hér til hliðar, hláturinn lengir lífið. LoL 


"Heilalausi hálfvitinn þinn"

ist2_740758_crazy_driverEinhverju sinni hefur maður heyrt ótrúlegar sögur úr umferðinni þar sem ökumenn missa gjörsamlega stjórn á skapi sínu, rjúka jafnvel út úr bílunum á rauðum ljósum og ausa svívirðingum yfir næsta bílstjóra sem eitthvað á að hafa gert af sér. Í dag fékk maður að reyna þetta á eigin skinni. Hér kemur sönn saga úr umferðinni í Reykjavík, dagsönn.

Saklausi sveitapilturinn hélt í einfeldni sinni að svona geðstirt og galið fólk væri bara ekki til. Mér varð það á að svara í farsímann er hann hringdi, akkúrat þar sem ég var staddur á gatnamótum. Það liðu varla nema tvær sekúndur þar til að sá eini bíll sem var fyrir aftan mig fer að hamast á flautunni með þvílíkum látum. Engu munaði að maður tæki snögglega af stað án þess að horfa til hægri eða vinstri, með ófyrirséðum afleiðingum. Eftir að hafa tekið beygjuna hélt maður að sá óþolinmóði hefði tæmt úr skálum reiði sinnar. En aldeilis ekki. Hann fór framúr mér og stöðvaði fyrir framan bílinn minn við næstu gatnamót, sneri sér við með kreppta hnefana og hefur áreiðanlega öskrað þessi ósköp. Hefðu ekki aðrir bílar verið farnir að flauta á hann, hefði sá skapstyggi rokið út úr bílnum sótreiður.

Ég hélt bara áfram að tala í símann, enda símtalið mjög mikilvægt, og veifaði manninum. Og þetta var ekki búið.  Við þessi gatnamót áttum við sömu leið, og ók ég í humátt á eftir. Við næsta strætóskýli leggur vinurinn út í kant, og ég ákveð að aka upp að hlið honum, nógu nálægt til að hann gæti ekki opnað hurðina bílstjóramegin (sniðugur strákurinn!).  Ég skrúfa niður rúðuna og spyr hvað sé eiginlega málið. Kemur þá ekki þessi líka þrumuræðan, um að ég hagaði mér eins og algjör asni í umferðinni, væri "heilalaus hálfviti" og ég veit ekki hvað. Fúkyrðaflauminum ætlaði aldrei að linna og það mátti maðurinn eiga, að hann kunni blótsyrðin utanbókar. Þetta bókstaflega frussaði útúr honum.

Ákvað að eiga ekki frekari orðastað við þennan rudda og ók af stað, hélt satt að segja að hann myndi elta mig uppi, en sá hann í baksýnisspeglinum hverfa inn í næsta húsasund.

Nú veit maður hvernig svona ruddar geta litið út. Þeir aka um á flottum og nýjum bíl, það vantaði ekki, stífbónaður og rauður amerískur kaggi, og sennilegast geta Skódaeigendur orðið fyrir einelti á götum úti frá svona gaurum. Ruddarnir geta litið vel út, á miðjun aldri, vel greiddir með grátt í vöngum, með gáfumannagleraugu, áreiðanlega í Armani-fötum með ermahnappa, snobbhænsn og hrokafullir broddborgarar. Þessi var líklegur til að búa í einum af fínu götum Árbæjarhverfis, situr á kvöldin fyrir framan arininn með rauðvinsglas í hönd og Mozart á fóninum, og telur sig heiminn hafa höndum tekið. Séu svona persónur foreldrar þá er fyrirmyndin ekki falleg.

Vinurinn mætti athuga blóðþrýstinginn eða fara á reiðistjórnunarnámskeið. Sá strax fyrir mér myndina Anger Management með Jack Nicholson og Adam Sandler. Efast samt um að þessi myndi fást til að mæta á námskeið og hvað þá útskrifast.


Riðill dauðans

D-riðill er sannkallaður dauðariðill, þetta verður bölvaður rembingur en eins og Liverpool hefur byrjað tímabilið þá hefst þetta á endanum. Allt eru þetta erfið lið heim að sækja og eiga eftir að gera Rauða hernum skráveifu. Vonandi fara mínir menn að hrökkva í gang, væntingar til liðsins eru gríðarlegar og við minnsta hikst verður æði heitt undir afturendanum á Rafa. Liðið virðist þurfa frekari styrkingar við, og ítreka ég það enn og aftur að maður sárlega saknar Crouch, hann er ekki að meika það með Portsmouth suður með sjó.
mbl.is Riðlar Meistaradeildarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband