Þjónustuhlé í Þjóðvegamúlu-1

Þeir eru lúnknir laganna verðir í Húnaþingi og hafa fundið sér nýjan stað til að góma hraðskreiða ökuþóra, reyndar ekki á þjóðvegi 1 heldur í Laxárdal þar sem bílarnir bruna á beinum vegi niður af Þverárfjalli. En sýnileiki þeirra á vegunum og eftirlit er til mikillar fyrirmyndar. Mættur löggur annarra landshluta taka þá sér til fyrirmyndar. Ein besta slysaforvörnin er að þeir sjáist á vegunum, það dregur töluvert úr hraðanum.

Annars var maður að koma að norðan í gærkvöldi og þvílík umferð! Engu líkara en hálf þjóðan hafi verið fyrir norðan á Fiskideginum og stórum knattspyrnumótum á borð við Króksmótið á Sauðárkróki og Pæjumótið á Sigló, að ógleymdri Hólahátíð. Mestan part leiðarinnar var umferðin þolanleg, flestir á skikkanlegum hraða en á tímabili virtist sem Formúla-1 væri hafin, þegar allir ætluðu að fara að spæna framúr á beinu köflunum. Ég tel mig hins vegar hafa komist á leiðarenda á góðum tíma, þurfti bara að taka þrjú þjónustuhlé....!

ps. vegna tæknilegra örðugleika hefur bloggið verið stopult síðustu daga en tæknimenn á mbl.is eru að vinna í málinu


mbl.is 26 teknir fyrir hraðakstur á tveimur tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver röndóttur!

Hann sló Eirík Fjalar nærri því útaf laginu á Stuðmannatónleikunum um helgina, gesturinn sem átti svarið rétt á undan Eiríki við spurningu hans um hvað maðurinn hefði sagt við félaga sinn er þeir sáu zebrahestahjörð koma niður hlíðina: Hver röndóttur! (Nú væri nær að svara: KR-ingar að falla úr úrvalsdeild!)

Þessi uppákoma fékk mig til að rifja upp ógleðina við að sjá mitt gamla lið, Tindastól, leika í gul-svart röndóttum treyjum í Víkinni á dögunum gegn Berserkjum, sem ku vera varalið Víkinga. Veit ekki hvað hefur orðið af gömlu góðu rústrauðu búningunum. Enda fór svo að ég hrökklaðist af velli í stöðunni 2-0 og svo fór að Stólarnir töpuðu þessum leik 3-1, sínum fyrsta í sumar. Vonandi eru þetta algjörir varabúningar og eingöngu notaðir í neyð. Það sýnir sig líka í efstu deild að röndóttir búningar eru ekki að gera sig þetta árið, alveg sama þó að Vesturbæingar reyni að fá Loga til að kveikja neistann. Þeir hefðu betur haldið teiti, nei ég meina Teiti....


Stolin hugmynd frá Dalvík?

Ágætis hugmynd hjá borginni að bjóða gestum Menningarnætur upp á vöfflur og með því í Þingholtunum. En er þetta ekki að grunni til stolin hugmynd? Mig minnir að Dalvíkingar hafi haft frumkvæði að því að bjóða gestum og gangandi upp á fiskisúpu í tengslum við Fiskidaginn mikla þar í bæ, ekki kom skipunin "að ofan" eins og frá Reykjavíkurborg.

Kannski er ég að tuða þar sem ég sé fram á að missa af Menningarnótt í ár, og þar með vöfflukaffinu, en borgin mætti nú sýna meiri frumleika en þetta. Dalvíkingar framkvæma kraftaverk á hverju ári, er þeir fá til sín tugþúsundir gesta á Fiskidaginn, sem er einmitt að bresta á um helgina.


mbl.is Heimilisleg menningarhátíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduskemmtun með öli og öllu

Tónleikarnir með Stuðmönnum voru skemmtilegir og ekki skemmdi veðrið, laufin bærðust varla. Helst var að rafmagnsleysi og tækniörðugleikar á sviðinu truflaði stemninguna, en hinir gömlu Stuðmenn hafa litlu gleymt, hvað þá Ladd og Shady Owens.

Þó er alltaf dapurlegt að sjá fullorðið fólk kneyfandi öl með börnin í eftirdragi. Áberandi margir foreldrar með bjórdós í annarri hendi og barn í hinni. Ekki var maður nú barnanna bestur á tónleikum og útihátíðum hér áður fyrr, en þá voru afkomendur ekki komnir í spilið. Vilji maður skemmta sér í góðra vina hópi, og hlusta á góða músík, þá skilur börnin eftir heima. Þetta var hins vegar sett upp sem fjölskylduskemmtun, enda í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og flest börn komin til að hlusta á Ladda og Birgittu Haukdal. Þau þekkja minna til Stuðmanna og Shady Owens.


mbl.is Shady söng með Stuðmönnum í Laugardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Standöpp um allan bæ

Það má fréttastofa Sjónvarps eiga að hún er dugleg að senda fréttamenn sína út um borg og bí í beina útsendingu í miðjum fréttatíma. Svo virðist sem dagskipunin sé að hafa eitt stand-up, eins og það ku vera kallað á fagmáli, í hverjum fréttatíma, sama hve mikið og merkilegt er í gangi. Þetta virkar sannarlega vel á mann sem sjónvarpsáhorfanda þegar stórtíðindi eru í gangi, en ég verð að viðurkenna að þetta kemur stundum dulítið kjánalega út. Dæmi er fréttin í kvöld um of fáa lögreglumenn á hvern íbúa á Íslandi. Bein útsending frá Austurvelli og viðtal við formann landssambands lögreglumanna. Á svona stundum hljóta t.d. tæknimenn Sjónvarps að tauta í hljóði til hvers í andsk... þeir séu að standa í þessu.

Ekki laust við að RÚV hafi smitast eitthvað af NFS, sem í raun varð að hætta vegna þess að það gerist ekki nógu mikið á litla Íslandi til að halda úti fréttasjónvarpi allan sólarhringinn. Það ber að virða Sjónvarpið fyrir að vilja hafa fréttaflutninginn lífandi og skemmtilegan en frétt í beinni útsendingu verður nú að standa undir nafni.


Gullströndin glóir!

Það var sérlega ánægjulegt að koma til Hofsóss á dögunum, og sjá hvernig þetta litla en sögufræga þorp er að ganga í gegnum endurnýjun lífdaganna. Ýmist er búið eða verið að endurbæta gömul hús en þessa uppsveiflu má að miklu leyti þakka Vesturfarasetrinu og frumkvöðlastarfi Valgeirs Þorvaldssonar og hans fjölskyldu. Í upphafi höfðu ekki margir trú á framtakinu en setrið hefur laðað til sín fjölda ferðamanna ár hvert, auk þess sem margir hafa komið sér upp sumarhúsi á staðnum.

Ekki dregur úr kraftinum nábýlið við Hof á Höfðaströnd, þar sem Baltasar Kormákur og Lilja Pálmadóttir hafa komið upp myndarlegu búi, og síðan hefur Steinunn Jónsdóttir reist listamannasetur á höfuðbólinu Bæ.

Starfsmenn Skagafjarðarveitna eru farnir að leggja heita vatnið til Hofsósinga og miklar vonir eru bundnar við sundlaugina sem Lilja og Steinunn hafa ákveðið að gefa sveitungum sínum. Til stendur að reisa sundlaugina frammi á sjávarkambi þorpsins, með góðu útsýni út og inn fjörðinn. Nú heyrast áform um að byggja þar við íþróttahús og jafnvel veitingastað og eru þjóðkunnir fjárfestar nefndir til sögunnar sem áhugasamir þátttakendur með fyrrnefndum athafnakonum.

Höfðaströndin ber uppnefnið Gullströndin með sóma. Þar virðist drjúpa smjör á hverju strái. Það er af sem áður var, er margir héldu að Hofsós væri jafnvel að leggjast í eyði. Til allrar hamingju urðu það ekki örlög þessa vinalega staðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband