Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Stórkostleg söngsýning Heimis

Fór á stórkostlega söngsýningu Karlakórsins Heimis í Langholtskirkju í gær, þar sem dagskrá var flutt í tali og tónum um óperusöngvarann skagfirska, Stefán Íslandi, sem á haustmánuðum hefði orðið 100 ára. Kirkjan var sneisafull enda orðið uppselt tveimur dögum fyrir sýninguna, sem áður hafði verið flutt í fjórgang, kvöldið áður í Reykholtskirkju í Borgarfirði, tvisvar á Akureyri um síðustu helgi og fyrst í Varmahlíð á þrettándanum. Var sýningin sett upp til heiðurs söngvaranum í tilefni 80 ára afmælis kórsins.StefanIsladi

Vonandi koma Heimismenn með þessa sýningu sem fyrst aftur suður þeir geta auðveldlega fyllt kirkjuna að nýju, þess vegna Háskólabíó. Ekki er það aðeins magnaður söngur kórsins, sem ég fullyrði að hafi aldrei verið betri, heldur er dagskráin öll hin skemmtilegasta og faglegasta. Einsöngurinn hjá Þorgeiri Andréssyni og Álftagerðisbræðrunum Óskari, Sigfúsi og Pétri Péturssonum er frábær. Þannig mátti heyra saumnál detta í kirkjunni er Sigfús söng Ökuljóðið, Áfram veginn í vagninum ek ég. Að sama skapi var krafturinn í Þorgeiri slíkur að hárgreiðsla gesta á fremsta bekk fór úr skorðum er hann hóf upp raust sína!

Undirleikurinn var einnig óaðfinnanlegur hjá Thomas Higgerson og málmblástursleikurunum og síðast en ekki síst voru upplestur og leikrænir tilburðir sr. Hannesar Arnar Blandon og Agnars Gunnarssonar frá Miklabæ hrein unun á að hlusta og sjá. Sem fyrr er það líka kórstjórinn Stefán R. Gíslason sem er að framkvæma enn eitt kraftaverkið með þennan kór. Hógvær piltur úr Blönduhlíðinni sem að mínu mati er með fremstu tónlistarstjórum landsins í dag.

Hefði Stefán Íslandi setið á fremstu bekkjum Langholtskirkju hefði hann tárast af gleði, flytjendur allir sýndu honum þann sóma sem þessi listamaður á skilið og það var ekki laust við að manni vöknaði um augu á mögnuðustu augnablikum þessarar dagskrár.

Ég sé á vefsíðu kórsins að búið er að ákveða tvenna tónleika fyrir austan 1. mars en vonandi tekst kórnum að halda fleiri sýningar í fjölmenninu hér sunnan heiða, svo að sem flestir geti hlýtt á magnaðan söng og fræðst í leiðinni um farsælan feril Stefáns Íslandi.


Nokkur sæti laus!

Þó að ekki megi gera grín að atvikinu þegar sæti Svandísar Svavarsdóttur losnaði í Fokkernum um daginn, og sem betur fer endaði allt saman vel, þá má maður til með að láta þennan fljóta áfram, að við skulum hér eftir hafa allan vara á okkur þegar við heyrum flugfélög eða ferðaskrifstofur auglýsa "Nokkur sæti laus"..... W00t

Nú sást blik í auga

Loksins kom sigur hjá strákunum okkar, nú sást það blik í auga sem sigurvegarar með sjálfstraustið í lagi sýna. Neistinn hefur verið kveiktur og vonandi dugar hann til að slökkva í eldheitum Spánverjunum. Miðað við ófarir síðustu daga yrði það stórafrek að við næðum að leika um sjöunda sætið á mótinu.

En það er alltaf gaman að heyra leikmenn og þjálfara skýra úrslit leikja við fjölmiðla, hvort sem það er sigur eða tap. Mér heyrðist Ólafur Stefánsson orða þetta einhvern veginn svona í kvöld:      Þegar við spilum vel þá erum við drullugóðir!


mbl.is Stórsigur gegn Ungverjum á EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fata-hreyfingin?

Heyrði einn skrambi góðan í dag, og það frá góðum og gegnheilum framsóknarmanni, að komið væri nýtt nafn á Framsóknarflokkinn, eða Fata-hreyfingin, með skírskotun til hins herskáa flokks Abbas í Palestínu annars vegar og maður þarf varla að segja hvað átt er við hins vegar...!!LoL

Gjörsamlega óviðunandi

Nú held ég að við Púllarar séum að missa alla þolinmæði. Árangurinn undanfarið er gjörsamlega óviðunandi, fimmta jafnteflið í röð, og litlu mátti muna að illa færi í kvöld. Vinur minn Crouch kom okkur til bjargar, á þessum versta degi ársins, og kaldhæðni örlaganna að hann kom Benitez líka til bjargar, manninum sem því miður hefur ekki treyst Crouch til þess að vera í byrjunarliðinu. Hollenski hundurinn Kátur lafir alltaf inná, hleypur lafmóður um víðan völl og loks þegar hann kemst í færi þá fer hann á taugum. Stór orð um áreiðanlega hinn vænsta pilt, en Liverpool hefur í þessari stöðu ekki ráð á annars flokks framherja. Það mátti greina mikla reiði á svip stuðningsmanna liðsins á Anfield í kvöld og skal ekki undra, ýmis skilaboð til bandarísku eigendanna voru einnig áletruð á spjöld og fána.

Undiraldan á Anfield er greinileg og mér segir svo hugur að stóllinn hjá Rafa Benitez sé orðinn sjóðheiturDevil


mbl.is Jafntefli hjá Liverpool og Aston Villa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnað lokatafl

Mikið er maður feginn að útfararfarsanum kringum Bobby Fischer sé lokið. Líkt og við skákborðið átti Fischer óvæntan lokaleik, hann virðist hafa verið búinn að finna sína hinstu hvílu.  Lítil og falleg kirkja í rólegu umhverfi, svo óvæntur og snöggur var lokaleikurinn að sóknarpresturinn kom af fjöllum. Lék skáksnillingurinn um leið á "andstæðinga" sína eða öllu heldur svonefnda stuðningsmenn sem virðist ekki hafa haft grænan grun um hvernig Fischer vildi ljúka sinni hinstu för. Maður setur ákveðna spurningu við framgöngu stuðningshópsins síðustu daga og í hve góðu, eða öllu heldur slæmu sambandi hann hefur verið við Fischer og hans nánustu. Líkt og hvernig Fischer fékk að vera í friði síðustu ævidagana á Íslandi þá átti að sjálfsögðu að veita honum frið að honum látnum og ekkert var meira við hæfi en útför í kyrrþey.

Hins vegar er ljóst að Laugardælakirkjugarður í Flóa verður ekki jafn rólegur og kyrrlátur og hingað til. Þangað mun á næstu árum fjöldi fólks heimsækja leiði skákmeistarans, og vissara fyrir sóknarnefndina að fara að huga að því, sé hún ekki þegar búin að kalla saman fund.


mbl.is Fischer jarðsettur í kyrrþey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er fyrirmyndin að fréttastjóranum?

Horfði á Pressuna á Stöð 2 í kvöld, fjórða eða fimmta þátt, og þetta er hin ágætasta afþreying miðað við upprunann. Höfum ekki mikla reynslu af því að gera spennuþætti en þessi nálgun er áhugaverð gegnum síðdegisblaðið Póstinn. Fyrirmyndin ku hafa verið DV á þeim tíma er ritstjórar voru Mikael Torfason og Illugi Jökulsson. Handritshöfundar segjast hafa sótt sér fyrirmynd í þá og aðra starfsmenn á blaðinu. Gott og vel, en hver var þá eiginlega fréttastjóri á þeim tíma? Þessi Gestur fréttastjóri í þáttunum er þvílíkur lúser að það hálfa væri nóg, algjör gúmmitöffari án innistæðu. Eigi ritstjórinn í Pressunni að líkjast Mikael Torfasyni þá hlýtur fréttastjórinn í hans tíð áreiðanlega vera farinn að efast um eigið ágæti....LoL

Kaupir Stöð 2 útsendingarréttinn?!

Eins og það var nú gott framtak að bjarga Fischer úr prísundinni í Japan, þá var ýmislegt prjál og tilstand kringum þá aðgerð sem Bobby karlinn hefur tæpast verið par hrifin af, eins og vera flogið til Íslands í einkaþotu, fá fyrsta handtakið á íslenskri grund frá fréttamanni Stöðvar 2 og vera svo ekið burtu í flottræfilsjeppa sjónvarpsstjórans. Að ætla sér að jarða karlinn á Þingvöllum er svo galin hugmynd að engu tali tekur. Halda menn virkilega að það hefði verið ósk Fischers? Hvað segja nánustu ættingjar hans og unnusta? Á kannski að semja við Stöð 2 um útsendingarrétt frá athöfninni?

Menn eru alveg búnir að tapa sér, því miður. Það er hægt að sýna minningu þessa skáksnillings virðingu og sóma á margan annan máta en þann að jarðsetja hann á Þingvöllum við hlið Jónasar Hallgrímssonar og Einars Benediktssonar. Hvað á svo að gera þegar okkar heimsþekktustu einstaklingar falla frá? Gera Þingvelli að einhvers konar Hall of fame?! Jónas, Einar, Fischer, Björk, Eiður Smári og Kiddi Jó.


mbl.is Fischer grafinn á Þingvöllum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krókurinn verði byggður upp

Hörmulegar fréttir af brunanum á Kaffi Krók og snertir alla Króksara, heimamenn sem burtflutta. Hugurinn er hjá Jóni Dan og Öldu, og áreiðanlega líka erfitt fyrir fyrri eigendur eins og Ómar Braga og Maríu Björk, sem opnuðu fyrst Kaffi Krók, að upplifa þetta. Um leið fylgja baráttukveðjur og hvatning um að byggja staðinn upp að nýju, Skagfirðingar eru ekki þekktir fyrir að gefast upp þótt á móti blási. Enda heyrðist mér á Jóni í kvöldfréttunum að það væri ekkert annað að gera en að byggja upp, Krókurinn má ekki við því að Jón yfirgefi staðinn, meistarakokkur á ferð, drengur góður og mætur Púllari !

Upp koma margar góðar minningar um þetta sögufræga hús, þær fyrstu frá því að Kaupfélagið rak þarna verslun og síðar þegar maður sótti sér skemmtun og góðar veitingar í mat og drykk. Húsið hafði það sterka ásýnd í gamla miðbænum að til að fylla upp í sárið verður hreinlega að byggja það upp að nýju, í sem upprunalegustu mynd.


mbl.is Stórbruni á Sauðárkróki í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með Davíð á Þingvöllum

Samgleðst Davíð Oddssyni sextugum í dag, sem og afa sáluga sem hefði orðið 101 árs. Hann hafði sérstakt dálæti á Davíð er hann var borgarstjóri en náði því miður ekki að lifa með honumDavíð Oddsson inn í glæsta forsætisráðherratíð.

Á þessum ágæta degi reikar hugurinn tíu ár aftur í tímann er við Gunnar V. Andrésson ljósmyndari lögðum leið okkar til Þingvalla til fundar við Davíð í ráðherrabústaðnum. Ég var þá á Helgarblaði DV og Davíð veitti okkur "drottningarviðtal" í tilefni 50 ára afmælisins. Við höfðum mikið fyrir þessu, tókum með okkur stóra rjómatertu með 50 kertum á og gáfum afmælisbarninu, létum hann blása á kertin og að sjálfsögðu var þetta forsíðumynd helgarblaðsins. Davíð fór á kostum á Þingvöllum og þetta er eitthvert eftirminnilegasta viðtalið á ferlinum. Það kryddaði svo stemninguna að viðtali loknu, er við fórum að gera tertunni skil, að Heimir Steinsson, er þá var prestur á Þingvöllum og staðarhaldari, bankaði upp á og settist niður með okkur. Sagðar voru sögur og brandarar um leið og tertunni var rennt niður. Yndisleg stund og verður lengi í minni.

17. janúar er magnaður dagur í sögunni, fyrir utan það að vera fæðingardagur afa, Davíðs og fleiri ágætra manna, og þá staldrar maður einkum við árið 1991. Þann dag braust Íraksstríðið fyrra út, Ólafur V Noregskonungur fór til feðra sinna og eldsumbrot hófust í Heklu. Var ekki starfandi á fjölmiðli þann daginn en var í fjölmiðlafræði uppi í Háskóla Íslands þar sem kennslustundirnar fyrstu vikurnar á eftir fóru aðallega í að kryfja fréttir af Íraksstríðinu, sem var eiginlega hið fyrsta sem fór fram nánast í beinni útsendingu á CNN. Sannarlega eftirminnilegir tímar.


Næsta síða »

Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 32002

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband