Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Hvað á að syngja? Tíu litlir blökkudrengir?

Það fór eins og mann grunaði, endurútgáfa á barnabókinni um negrastrákana kom við kauninn á fólki. Mikið afskaplega erum við orðin viðkvæm, rétttrúuð og húmorslaus.  Það hefði þá kannski verið nær að láta Biblíufélagið endursemja textann og samræma hann rétttrúnaði nútímans. Hvað hefði þá átt að nota í staðinn?  Svörtu strákarnir? Blökkudrengirnir?

Negrastrákarnir er einfaldlega klassískt bókmenntaverk sem hefur verið til á öðru hverju heimili í landinu síðustu 30 árin. Hún er væntanlega endurútgefinn þar sem útgefandinn fann fyrir eftirspurn eftir henni. Hún er ekkert betri eða verri en margar barnabækur sem koma á markaðinn, sumar hverjar með slíku orðbragði að maður hefur við upplestur roðnað og tautað innra með sér hverslags bull þetta er. En þetta eru skáldverk og óþarfi að úthrópa þau á götum úti.

Umræða um innflytjendur eða fólk af erlendum uppruna einkennist á stundum af móðursýki, og fjölmiðlar t.d. gagnrýndir fyrir að geta uppruna fólks í fréttum, ekki síst í lögreglufréttum og sakamálum. Vissulega bera fjölmiðlar þarna ábyrgð og mega ekki kynda undir óþarfa kynþáttafordóma, en ég sé enga fordóma vera í því að segja að brotamenn eða sakamenn hafi verið íslenskir, pólskir, breskir, kínverskir eða grænlenskir. Þetta eru einfaldlega staðreyndir mála, alveg eins og hvar atburður átti sér stað, hvernig og af hverju.

Við Íslendingar búum í gjörbreyttu samfélagi frá því fyrir fáum árum, þar sem innflytjendum hefur fjölgað gríðarlega. Það er bara hið besta mál, einhvern veginn verðum við að manna störfin sem við höfum búið til og það er óþarfi að vera með einhverja viðkvæmni í umræðu um þetta ágæta fólk. Upp geta komið smávægilegir árekstrar, þá einkum vegna tungumálaörðugleika, og það var magnaður sketsinn hjá Spaugstofunni um síðustu helgi, þegar gamla fólkið var komið á skólabekk að læra taílensku og pólsku, t.d. að spyrja á taílensku: Viltu rétta mér hlandkoppinn? ÓborganlegtLoL


Dapurt á leikvelli dauðans

Okkar menn eru ekki að meika það þessa dagana, og sennilega er Finninn fljúgandi að koma inn til lendingar, allt að því brotlendingar. Reyndar afskaplega óheppinn í kvöld kallinn að fá boltann í sig í sjálfsmarkinu, en svo missti hann Brassann inn fyrir sig í seinna markinu.

Annars er ekkert lið öfundsvert að því að spila á heimavelli Besiktas, þetta er leikvöllur dauðans þar sem öskrandi lýðurinn kallar á blóð, enda eru nýir leikmenn þarna vígðir inn með blóði dýra sem fórnað er á altari trúarofstækis. Það fékk Jolli að reyna um árið, og hefur víst aldrei upplifað annað eins á sínum ferli.

Síðan setur maður stórt spurningamerki við taktík Benitez í innáskiptingum og liðsskipan. Hann var alltof seinn að setja Crouch inná í kvöld, Kuyt var ekki að gera sig og Voronin ekki heldur. Vonandi fer Torres að koma inn í liðið. Með smá heppni hefðu þessu úrslit í kvöld geta verið öðruvísi, Gerrard með nokkra góða sénsa, en svona er blessaður boltinn. Það eru ekki alltaf jólin og nú er bara að einbeita sér að deildinni á Englandi, líklegast eru vonir um að komast áfram í Meistaradeildinni orðnar að engu.

Þetta er sárt, og tekur í, en þú ert aldrei einn á ferð...Frown


mbl.is Liverpool lá í Istanbul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er það Operation Olsen-Olsen!

Ánægjulegt að fjölga skuli í víkingasveitinni, ekki veitir af í baráttunni við skipulögð glæpasamtök og illræmd fúlmenni, sem virðast farin að flykkjast til landsins stríðum straumi, að ógleymdum glæpamönnum Íslands.

En það að víkingasveitarmennirnir verði 52 gefur gárungum eins og mér færi á að benda á þá skemmtilegu staðreynd að þetta er sami fjöldi og spilin eru í hefðbundnum spilastokki! Nú getur hver og einn liðsmaður fengið status, allt frá Hjarta-ás til Laufa-Kóngs, og allt þar á milli, allt eftir því hve háttsettir menn eru innan sveitarinnar. Og svo gefur þetta lögreglunni færi á að gefa aðgerðum sínum skemmtileg heiti, eins og Operation Poker, Operation Olsen-Olsen eða bara Operation Manni, alveg eins og Operation Pole-Star í skútusmyglinu á dögunum.

Vona að maður verði ekki böstaður vegna þessarar bloggfærslu en hér er þó amk komin hugmynd fyrir nafngiftir í fjarskiptum víkingasveitarinnar. Einhver dulnefni verða menn að hafa....Police

 

 


mbl.is Víkingasveitin verði skipuð 52 lögreglumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er málið, félagsliðin eru þeim mikilvægari

Ágætis pistill að mörgu leyti hjá kollega mínum á Mogganum í gær, FH-ingnum knáa, Gumma Hilmars, um að leikmenn fótboltalandsliðsins verði líka að bera sína ábyrgð á slæmu gengi liðsins. Það virðist vera eitthvað meira en lítið að í hugarfylgsnum leikmannanna, og td athyglisvert að sjá á Vísi um helgina ummæli Arnars Þórs Viðarssonar á hollenskri sjónvarpsstöð um að félagslið hans, De Graafschap, sé mikilvægara en landsliðið. Þarna liggur nefnilega hundurinn grafinn, nánast í heilu lagi, að leikmennirnir margir hverjir telja landsliðið í raun ekki forgangsmál. Þá á maður við atvinnumennina sem hefur verið treyst fyrir landsliðssæti, þeir veigra sér td við því að fara í tæklingar, eru hræddir við að meiðast og missa sæti sín í félagsliðunum. Á þessu er þó amk ein undantekning, eða Hemmi Hreiðars, sem fer í hvern leik með hjartað og heilann á réttum stað. Hann hefði í raun miklu frekar átt að bera fyrirliðabandið en gullkálfurinn Eiður Smári, sem þrátt fyrir alla hans hæfileika í fótbolta virðist vera ákveðinn dragbítur á landsliðið. Það hafa úrslit síðustu landsleikja sýnt, því miður.

Svo var líka merkilegt að sjá það haft eftir Eiði Smára um helgina, að honum líði best á miðjunni. Ef svo er, hvað er hann þá að rembast við að keppa um sóknarmannsstöður á Spáni, og óska þess að spila fremst með landsliðinu? Hefði hann hikstað þessu upp úr sér fyrr, og verið á miðjunni með landsliðinu og skilað fyrirliðabandinu til Hemma Hreiðars, hefði gengi liðsins verið allt annað. Það er mín skoðun.

 


Tapaði bjórkippu...

Ég á einhvern tímann við gott tækifæri eftir að rukka vin minn Eyjólf um bjórkippuna sem ég tapaði í veðmáli í kvöld! Ætla rétt að vona að hann taki þessa drengi sína og húðskammi þá fyrir að gera ekki það sem fyrir þá er lagt, og láti þá taka 100 armbeygjur eftir leik. Palli Ragnars lét okkur amk hlaupa einn hring eftir tapleiki hjá Stólunum í gamla daga, sem reyndar voru svolítið margir....

Merkilegur þessi grátkór sem alltaf fer í gang eftir tapleiki, Reka þjálfarann, reka þjálfarann! Í þessu tilviki er það engin lausn. Til bóta væri að draga Eið Smára aftar á völlinn, hann er of góður til að hanga frammi og taka af honum fyrirliðabandið til að færa hann nær hinum drengjunum. Þessi frábæri fótboltamaður er að verða of stór biti fyrir landsliðið, þó ljótt sé að segja þá spilum við jafnvel betur án hans.

Við eigum að sýna meiri þolinmæði og byggja upp samhent lið til næstu afreka. Ljóst er að alþjóðaboltinn er í mikilli framför, meira að segja Liechtenstein er bara með nokkuð gott lið, og litlar þjóðir eru að dragast meira aftur úr þeim stóru. Þetta er raunveruleiki sem við verðum að sætta okkur við.

Við eigum að horfa fram á veginn, fylkja okkur um Eyjólf og landsliðið og öskra Áfram Ísland áður en við leggjumst á koddann í kvöld... og þegar við vöknum í fyrramálið.

ps. hafi einhver haldið að ég hafi verið möggaður í Kína, eða hrapað með vélinni, þá er ég semsagt löngu lentur en fékk bara einfaldlega bloggstíflu og depressjón eftir byltinguna í Ráðhúsinu og alla þá vitleysu sem þar gekk á


mbl.is Ljótur skellur Íslands í Liechtenstein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðpunkturinn á götum úti!

Sértu Evrópubúi og í XXXL-stærð, og vantar einhverja athygli á götum úti, þá skaltu labba í fjölskyldugarðinn og ströndina, eða hvar sem þú ert í Kína. Þannig var amk tilfinningin að ganga um götur og Qingdaoborgar í dag, þar sem allra augu beindust að mér. Kannski ekki nema von, þar sem hvergi var hvítan mann að sjá og allir þessu ágætu Kínverjar eru einhvern veginn allir eins, smávaxnir, dökkhærðir og flottir. Þar er engum aukakílóum fyrir að fara. Man ekki til þess að hafa séð digran Kínverja í túrnum hérna til Qingdao.

Alveg mögnuð ferð og maður kemur heim reynslunni ríkari, svo ekki sé talað um kínverskuna. Nú get ég sagt hvaðan ég kem, hvernig ég á að þakka fyrir mig og hvernig á að skála! Hér hefur verið komið fram við Íslendingana eins og þeir væru í guðatölu, öllum götum lokað á meðan við erum á ferðinni, jafnvel þótt Ólafur Ragnar og Dorrit eru ekki með, og skrítin tilfinning að horfa á fólkið á götum úti, þar sem eins og slökkt hafi verið á kvikmynd og hún sett á pásu á meðan við förum á klóið. Mér skilst að sjaldan hafi verið jafn mikið tilstand í þessari borg og útaf Frónbúunum.

Nú bíður maður bara spenntur eftir heimferðinni, og vonandi þarf ekki að skipta um fleiri varahluti í júmbóþotunni.... Gambei Ging Dao!

 

Heiðursvörður Eimskips á hafnarbakkanum

Í kínverskum skemmtigarði í QingdaoRisablöðrur og flugdrekar eru algeng sjón

 

 


Í lögreglufylgd í Kína

Mátti til með að hripa niður smá bréf frá Kína. Staddur hér í borginni Qingdao í vinnuferð fyrir Moggann, að fylgjast með Eimskipsmönnum opna nýja frystigeymslu og treysta samskiptin við Kínverja. (Endilega kaupið Moggann um helgina!)

Flugum hingað í einni strikklotu með Boiing jumbóþotu, nærri 10 tímar, og lengsta flug sem maður hefur afrekað. Aldrei stigið upp í svona ferlíki, merkilegt að þetta komist á loft, og það svo sem byrjaði ekki vel í gærkvöldi í Keflavík, þegar ferðin tafðist um tvo tíma vegna bilunar í einum hreyflinum. Kannski ekkert sérlega uppörvandi fréttir fyrir svona langt flug, að það voru bara ræstir út flugvirkjar og þeir skiptu um varahluti á mettíma.

Fengum konunglegar móttökur í Qingdao og ljóst að Eimskip og Ísland eru í miklum metum í borginni. Fáum lögreglufylgd út um allt, meira að segja í skoðunarferðir, og gatnamótum lokað á meðan. Og forsetinn okkar, Ólafur Ragnar, ásamt Dorrit, eru ekki einu sinni mætt.  Reynsluboltar í viðskiptaferðum til útlanda muna ekki aðrar eins móttökur. Okkur líður svolítið eins og þjóðhöfðingjum, óbreyttir Íslendingar um borð í rútum.

Hef ekki komið til Kína áður en þetta er nokkuð myndarleg borg, gríðarleg uppbygging og kranar úti um allt. (Það er víðar byggt en í Reykjavík!) Borgin hefur líklega evrópskara yfirbragð en margar aðrar kínverskar borgir, enda er hún nánast stofnuð af Þjóðverjum fyrir rúmum 100 árum. Þeir hafa greinilega kennt kínverjunum að brugga ágætis bjór því Tsingtao-bjórinn fær bestu meðmæli!

Læt hér staðar numið, kvöldverður býður eftir manni og smá íslenskt partí þar sem mér skilst að Jón Ólafs og Eyjólfur Kristjáns munu troða upp. Menn eru flottir á því hérna, og hótelið ekkert slor....kinamyndir 001

kinamyndir 002kinamyndir 003kinamyndir 004

 

 


Alzheimer light

Heyrði hreint ágætis sögu í kvöld af ónefndum Vestfirðingi, sem var jafnan utangátta og mikill prófessor til orðs og æðis. Einhverju sinni mun hann hafa verið að hella í kaffibolla sinn er hann sagði líkt og einhver annar en hann væri að tala, er bollinn var að fyllast: Takk, takk, ekki meira. Vel má vera að þetta sé þjóðsaga, en ágæt er hún engu að síður.

Sagan fékk mann til að rifja upp í huganum ýmis smávægileg atvik úr hinu daglega lífi, sem virðist benda til að maður geti verið hættulega mikið utan við sig, allt að því með Alzheimer light, þó að ekki vilji ég gera lítið úr þeim hörmulega sjúkdómi sem herjar á eldra fólk. En þetta hefur þó ágerst á ofanverðum fertugsaldrinum og nú í byrjun fimmtugsaldursins. Maður er kannski bara orðinn fjári gamall.

En það er ekki normalt að gleyma og týna símanum í tíma og ótíma, skilja peningaveskið eftir í buxum aldrei þessu vant og henda þeim svo í þvottavélina, standa upp frá básnum í vinnunni til að sækja blað úr prentaranum en koma svo til baka á borðið með vatnsglas úr eldhúskróknum, beygja á götum borgarinnar til hægri þegar maður ætlaði til vinstri, og þannig mætti lengi telja.

Þetta eru svosem ekki stórvægileg afglöp en geta verið vísbending um alvarlega þróun. En allt er á réttum stað núna og ég held ég standi bara upp og fái mér vatnssopa. Það er slökkt á prentaranum...

 

 


Höfundur

Björn Jóhann Björnsson
Björn Jóhann Björnsson

Höfundur er kotroskinn og kærulaus Króksari að uppruna.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 129
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 129
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nýjustu myndböndin

Fögnuður úr böndum

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband